Vinnumálastofnun segir að greiðslur Ábyrgðasjóðs launa til fjögurra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigunnar Manna í vinnu virðist ekki hafa verið í samræmi við lög.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stofnuninni í kvöld, en eins og Kjarninn sagði frá í dag sendi Efling frá sér tilkynningu um málið þar sem sagði að í ljósi greiðslna Ábyrgðarsjóðs myndi stéttarfélagið ekki styðja við kæru til Landsréttar vegna frávísunar á kröfum félaga sinna í síðasta mánuði.
„Afgreiðsla á launakröfum í þrotabúinu í febrúar og mars, virðist ekki vera í samræmi við lög og mun Vinnumálastofnun taka málsmeðferð sjóðsins til endurskoðunnar. Kröfurnar voru afgreiddar í samræmi við samþykki skiptastjóra þrotabúsins sem lá fyrir síðastliðið haust. Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms 24. febrúar sl.var tilefni til endurskoðunar á afgreiðslu umrædds þrotabús. Það var yfirsjón að afgreiða þessar kröfur án tillits til umrædds dóms,“ segir í yfirlýsingu Vinnumálastofnunar.
Vinnumálastofnun tekur fram í yfirlýsingunni að engin afstaða sé tekin af hálfu stofnunarinnar til þeirra málaferla sem Efling á í við þrotabú Menn í vinnu og fyrirtækið Eldum rétt.