Grikkir munu gera breytingar á virðisaukaskattkerfinu, öðrum skattstofnum og á lífeyriskerfinu strax í dag og á morgun. Þeir munu einnig ráðast í niðurskurðaraðgerðir fyrir miðvikudaginn.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu um samkomulagið sem gert var milli Grikkja og hinna evruríkjanna í morgun. Aðeins þegar þeir hafa lokið við lagasetningu munu þjóðþing hinna ríkjanna koma saman til að samþykkja neyðarlán. Aðgerðirnar eru sagðar nauðsynlegar til þess að byggja upp traust á milli samningsaðilanna.
Þá kemur fram í yfirlýsingunni að Grikkir þurfi að gera enn meiri breytingar en kveðið er á um í tillögum þeirra sjálfra. Þeir þurfi að setja fram tímatöflu um breytingarnar með skýrum og mælanlegum markmiðum.
Grikkir þurfa að ráðast í „metnaðarfullar“ breytingar á lífeyriskerfinu fyrir septemberlok. Þeir þurfa einnig að ráðast í miklar umbætur á hagkerfinu. Meðal þess sem tekið er fram í skjalinu er að þeir þurfi að hafa verslanir opnar á sunnudögum, þeir þurfi að breyta reglum um eignarhald á apótekum, mjólkurbúðum og bakaríum, auk þess sem þeir þurfa að gera ferjusiglingar frjálsar. Þeir þurfa að einkavæða raforkuflutningskerfið og gera breytingar á kjarasamningum og viðræðum. Þá þurfa þeir að breyta fjármálakerfinu og koma í veg fyrir afskipti stjórnmálamanna, sérstaklega af ráðningum.
Þá verða eignir gríska ríkisins settar í sjóð sem mun hafa umsjón með einkavæðingu. Féð sem fæst verður notað til þess að borga nýju neyðarlánin til baka og grynnka á öðrum skuldum. Áætlað er að 50 milljarðar evra fáist, helmingur fari í borgun skulda og hinn helmingurinn verði notaður í fjárfestingar. Grikkir munu sjálfir hafa umsjón með sjóðnum, sem er eitt fárra atriða sem Grikkir fengu framgengt í samkomulaginu, en upphaflega átti sjóðurinn að vera staðsettur í Lúxemborg. Einnig þurfa Grikkir að birta fyrstu tillögur sínar að miklum umbótum á stjórnkerfinu fyrir 20. júlí. Þeir eiga að minnka kostnað við stjórnkerfið og styrkja embættismannakerfi.
Grikkir skuldbinda sig til þess að ráðfæra sig við Seðlabanka Evrópu, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um öll lagafrumvörp sem tengjast þessum málum. Þetta þurfa þeir að gera áður en stjórnvöld fara með frumvörpin fyrir þingið eða fyrir þjóðina.
Þeir skuldbinda sig líka til þess að endurskoða öll lög sem þeir hafa samþykkt sem fara gegn síðasta samkomulagi, sem var tímabundið frá febrúar síðastliðnum. Undantekningin eru lög sem samþykkt voru í mars og eiga að tryggja fátækum Grikkjum ókeypis rafmagn og mat. Þetta gæti þýtt að þeir þurfi til dæmis að reka aftur skúringafólk sem var ráðið aftur á dramatískan hátt.
Ef allt gengur eftir eiga Grikkir að fá tíu milljarða evra strax til þess að gera grískum bönkum kleift að opna á ný.
Þá er í yfirlýsingunni fjallað um það að efasemdir séu um sjálfbærni skuldanna, en útilokað er jafnframt að ráðist verði í stórfellda niðurfellingu skulda. Hins vegar verði tekið til skoðunar að lengja tímabil þar sem þeir þurfi ekki að borga til baka, og þar með lengja í lánum.
Að lokum kemur svo fram í yfirlýsingunni að ef öll skilyrði yfirlýsingarinnar verða uppfyllt muni verða ráðist í aðgerðir til að örva hagvöxt og skapa störf á næstu þremur til fimm árum. Þetta verður gert með því að veita 35 milljörðum evra í ýmsar fjárfestingar. Þá verður lagt til að milljarður evra fari strax til Grikklands til að örva fjárfestingu.