Frestur grískra stjórnvalda til að leggja fram nýtt samkomulagstilboð fyrir kröfuhafa sína rennur út í kvöld. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fundar í dag með ríkisstjórn sinni og er búist við að að tilboð verði formlega lagt fram í kjölfarið. Samkvæmt áætlun verða tæknileg atriði samningsins yfirfarin af Alþjóðagjaldeyrissjóðinum (AGS), Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu á föstudag, fjármálaráðherrar evruríkjanna munu yfirfara samninginn á laugardag og leiðtogar evruríkjanna funda á sunnudag.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, ítrekaði í morgun að einungis þrír dagar séu til stefnu. Afar mikilvægt sé að raunhæft tilboð berist frá Grikkjum í dag. Hann talaði jafnframt fyrir nauðsyn þess að kröfuhafarnir mæti tilboði Grikkja með raunhæfum hætti og að skuldastaða gríska ríkisins geti borið sig eftir samninga.
Það er mat AGS að Grikkir þurfi um 60 milljarða evra í formi nýrra lána og niðurfellinga eldri skuldbindinga. Grísk stjórnvöld óskuðu í gær formlega eftir fjárhagsaðstoð í gegnum sérstakan neyðarlánasjóð evruríkjanna, hið svokallaða Evrópska stöðugleikakerfi.
Bankar í Grikklandi hafa verið lokaðir síðustu níu viðskiptadaga og munu ekki opna fyrr en í fyrsta lagi næsta mánudag. Almenningur getur á meðan aðeins tekið út að hámarki 60 evrur á dag úr hraðbönkum. Blaðamenn The Guardian, sem fylgjast grannt með stöðu mála, hafa í dag greint frá nýlegum efnahagstölum í Grikklandi, meðal annars atvinnuleysistölur sem sýna 25,6 prósent atvinnuleysi í landinu. Þá hefur almennt verðlag í Grikklandi lækkað um 2,2 prósent á síðasta ári. Grikkir glíma því við verðhjöðnun en ekki verðbólgu.