Guðlaugur Þór Þórðarson segir Sjálfstæðisflokkinn hafa misst trúverðugleika hjá tekjulægra fólki og að „óvinir“ flokksins séu ekki fólkið í vinstri flokkunum. Bjarni Benediktsson segir flokkinn hafa byggt upp stéttlaust samfélag jafnra tækifæra og að þjóðin hefði verið bólusett gegn vinstri stjórn. Ólíkar áherslur frambjóðendanna tveggja til formanns í Sjálfstæðisflokknum komu í ljós í ræðum þeirra á landsfundinum í Laugardalshöll í dag.
„Og ég sagði bara já.“
Þetta er það fyrsta sem heyrðist af ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, frambjóðanda til formanns í Sjálfstæðisflokknum á streymi af landsfundinum í Laugardalshöll á síðu flokksins í dag. Þarna hefur tæknin líklega verið að stríða okkur, myndu einhverjir segja. En þeir sem heima sátu við skjái sína að fylgjast með framboðsræðunni misstu af þessum sökum af fyrstu mínútunum.
En það eru landsfundarfulltrúar sem kjósa. Og þeir að öllum líkindum flestir í salnum og heyrðu hvert orð. Sá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann Guðlaugs Þórs koma á hækjum vegna fótbrots inn á sviðið, með mynd af ósnortinni íslenskri náttúru varpað upp á vegginn að baki sér. Og Bjarna Benediktsson, formann flokksins, sem sækist eftir endurkjöri, að horfa á sig af fremsta bekk í salnum.
Vinstri fólk ekki óvinurinn
„Óvinir okkar eru ekki fólkið í vinstri flokkunum,“ sagði Guðlaugur. Óvinir okkar eru ótti, öfund og illmælgi. Versti óvinurinn núna er kannski vantrú á erindi flokksins.“
Hann sagði tvær ástæður fyrir því að hann byði sig fram til formanns. „Í fyrsta lagi finnst mér fylgi flokksins óásættanlegt. Og í öðru lagi, og þetta tengist, finnst mér að við höfum tapað samtalinu við hinn almenna flokksmann og þjóðina í heild.“
Miðað við góða stöðu á ýmsum sviðum samfélagsins sagðist hann velta fyrir sér hvers vegna staða flokksins væri ekki betri en hún er. „Hvað er það við ásýnd flokksins sem fælir kjósendur og nýja fylgismenn frá?“
Hann sagði ljóst að það væri ekki sjálfstæðisstefnan. Ekki heldur sá árangur sem flokkurinn hefði náð, íslensku samfélagi til heilla. „Af hverju heldur áfram að fækka í hópi stoltra sjálfstæðismanna?“
Hann sagðist trúi því að gildi sjálfstæðisfólks ætti miklu meiri hljómgrunn meðal þjóðarinnar en núverandi fylgi flokksins segði til um.
Óbeit á elítu-stjórnun
Hann rifjaði upp að þegar hann var að alast upp í Borgarnesi hafi „Sambandið sáluga var allt umlykjandi í bæjarfélaginu“. Það hafi barið niður alla nýsköpun sem það taldi vera í samkeppni við sig. „Því var stýrt af þröngum hópi fólks. Einskonar elítu. Og á því stjórnarfari hafði ég og hef eðlislæga óbeit.“
Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn alltaf eiga að vera fjöldahreyfingu. Hann megi „aldrei verða einkaklúbbur útvalinna“.
Fjöldahreyfing snúist m.a. um að breiður hópur fólks starfi saman innan flokksins og að allir þjóðfélagshópar hafi þar rödd.
„Það er staðreynd að þrátt fyrir að við búum sannarlega í velmegunarríki, þá þrífst fátækt enn hér á landi,“ sagði hann. „Og ég vil segja: Hún er blettur á íslensku samfélagi. Það er eitthvað sem við sjálfstæðisfólk þurfum að beita okkur gegn með skýrari hætti. Þar kjarnast líka hið gamalkunna slagorð: Stétt með stétt. Peningarnir sem samborgararnir trúa okkur fyrir eiga að renna þangað sem þörfin er mest. Þörfin er ekki mest hjá millistjórnendum í skrifstofustörfum hjá hinu opinbera heldur hjá skjólstæðingum Tryggingastofnunar, öryrkjum og eldri borgurum og hjá láglaunafólki.“
Hann sagði leiðtoga verða að hafa sýn og til að framkvæma hana „verður hann að halda vel utan um fólkið sitt“.
En hvernig Sjálfstæðisflokk vill Guðlaugur sjá?
„Ég vil sjá Sjálfstæðisflokk þar sem er mikil nýliðun, þvert á kjördæmi og sveitarfélög,“ sagði hann. „Ég vil sjá valddreifðan flokk en ekki miðstýrðan.”
Hann sagðist líka vilja sjá Sjálfstæðisflokk sem endurheimtir gamla félaga sem hafi því miður margir horfið frá flokknum á undanförnum árum.
Flokkurinn hafi misst trúverðugleika
Guðlaugur Þór sagði að hörð átök væru nú í íslenskri verkalýðshreyfingu. „Og mér finnst athyglisvert að þar kveður sér til hljóðs fólk sem talar niður stéttasamvinnu og telur hana af hinu illa. Ég hef hins vegar aldrei verið samfærðari en nú að samvinna ólíkra stétta og hópa á grundvelli okkar lífsgilda er það sem mun skila Íslandi fram á veginn og varða leiðina til betri lífskjara. Staðan í flokknum okkar er hins vegar sú að fylgi tekjulægri hópa við okkur er í sögulegu lágmarki. Við höfum misst trúverðugleika hjá ákveðnum hópum sem samsama sig ekki ímynd flokksins. Þessu þarf að breyta strax.“
Í lok ræðu sinnar talaði Guðlaugur Þór beint til landsfundarfulltrúa. „Þið getið valið að sætta ykkur við stöðu flokksins og valið óbreytt ástand. Ég vil verða formaður því ég trúi því með öllum mætti að við getum endurheimt fyrri styrk.“
Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn of mikilvægan „til að leyfa sér litla drauma“.
Bjarni Benediktsson, formaður flokksins til þrettán ára, byrjaði ræðu sína á að segja frá hugmynd sem hann fékk í baði. Hann hafi látið renna í bað, ekki þurft að hafa áhyggjur af því hvað það kostaði, eins og margir íbúar á meginlandi Evrópu. „Þá fékk ég þessa hugmynd að við ættum að geta þétt raðirnar og ráðast í það verkefni að safna þingflokknum saman, sem ekki hafði verið gert áður, og farið út um allt land.“ Þannig varð hugmyndin að „hringferðinni“ til. Hún var reyndar ekki farin í fyrra vegna heimsfaraldursins.
„Ég hef alltaf viljað hafa það þannig að við stæðum ekki eins og ég geri hér, yfir ykkur. við eigum ekki að stadda yfir fólkinu og segja hvernig samfélagið eigið að vera.“ Þess vegna hafi hringferðin verið farin.
„Þetta er ein af betri hugmyndunum sem ég hef fengið í baði,“ botnaði Bjarni þessa dæmisögu um það hvernig hann ræðir við grasrótina sem Guðlaugi Þór hefur orðið tíðrætt um að þurfi nauðsynlega að gera meira af.
Í sókn
Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri í sókn. Að í flokknum væri endurnýjum og að nýtt fólk væri að dragast að honum. „Ef við bara treystum á fólk og tökum góðar ákvarðanir mun samfélaginu öllu miða vel áfram.“
Sama verklaginu þurfi að beita varðandi fylgi flokksins. „Smám saman munu hlutirnir fara að ganga með okkur. Ég er algjörlega sannfærður um það.“
Bjarni sagðist geta greint frá því, „í fullri einlægni“ að það væri ekki alltaf auðvelt að standa með storminn í fangið. „En verðum alltaf að standa í lappirnar. Alltaf að mæta til leiks.“ Hann sagðist ekki vera að biðja um að þetta væri auðvelt, alls ekki. „Við viljum vera fyrirmyndir í samfélaginu. Sýna hugrekki þegar á móti blæs.“
Ef það er einhver flokkur sem hefur „þetta erfðaefni í sér, að standa í lappirnar, og láta ekki beygja sig þá“ sé það Sjálfstæðisflokkurinn.
Aldrei mætti gefast upp og aldrei mætti leita að auðveldu leiðinni. „En þetta er ekki tómur táradalur. Þetta eru forréttindi, að fá að leiða stjórnmálaafl, langstærsta flokkinn í landinu.“
Þroski, þekking og reynsla
Hann sagði formannsstarfið gefandi, ögrandi og „ofboðslega þroskandi“.
Hann stæði fyrir framan landsfund í dag með þá þekkingu sem hann hefði, en fyrst og fremst með þá reynslu sem hann hefði aflað sér, boðinn og búinn til að vinna áfram fyrir flokkinn, fyrir landið. „Að vera formaður í Sjálfstæðisflokknum er ekki aðeins einhvers konar tækifæri lífsins til að hafa áhrif á samfélagið. Það er bara alveg einstakt að starfa fyrir ykkur, fyrir sjálfstæðisfólk.“
Næst var komið að því að taka aðra flokka fyrir. Bjarni talaði um öfund þeirra, að margir þeirra héldu að það væri hægt að „ljósrita“ Sjálfstæðisflokkinn og búa til alveg eins flokk. „En það er bara alls ekki hægt.“
Hann sagði sjálfstæðismenn hafa látið aðra flokka um opinber átök, „hamagang og vesen“ – flokka sem geti „varla séð hurð án þess að skella henni“.
Í því samhengi hóf hann að skjóta á Samfylkinguna. „Ég eiginlega vorkenni samfylkingarfólki, í alvörunni. Það hlýtur að vera alveg ömurleg reynsla að dveljast alla daga í einhvers konar pólitískum bergmálshelli. [...] Að vera hrædd við eigin pólitíska skugga allan daginn. Skelfingu lostin.“
Erfitt að taka stjórnarandstöðunni alvarlega
Hann talaði áfram um það sem hann kallaði „undarlegheit“ í fari fólks í stjórnarandstöðunni. Að stundum vissi hann ekki hvort hann ætti að hlæja eða gráta. Þarna hafði honum orðið hugsað til Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Mannsins sem hefði sent fjölda fyrirspurna á ráðuneytin og eytt þannig fjármunum skattgreiðenda. Meðal annars spurt hvað klukkan væri.
„Ég er líklega að gera honum allt of hátt undir höfði hérna,“ sagði Bjarni. „Hann spurði líka hvað er langt frá þinghúsinu til tunglsins.“
Við skulum passa okkur, sagði hann svo. „Þótt að það sé erfitt að taka þessu fólki alvarlega, þá er það þannig að þessu fólki er fúlasta alvara með því að vilja taka völdin í landinu. Og það þurfum við að koma í veg fyrir.“
Fjölmiðlarnir
Bjarni sagðist iðulega finna að andstæðingar hans biðu eftir að hann hætti. „Stundum finnst mér meira að segja heilu fjölmiðlarnir gangi út á það, svei mér þá.“ Nefndi hann Fréttablaðið sérstaklega sem hann sagði í áróðri fyrir Evrópusambandið. Menn þyrftu að átta sig á því.
„Þjóðin prófaði vinstri stjórn,“ hélt Bjarni áfram, en að miðað við endingu bóluefna væri þjóðin ennþá bólusett fyrir slíkri ríkisstjórn.
Hann fór hins vegar fögrum orðum um ríkisstjórnarsamstarfið við Vinstri græn og Framsóknarflokkinn og sagði það byggjast á trausti.
„Við höfum þurft að treysta á smáflokka,“ rifjaði hann upp og átti þar við Bjarta framtíð sem sleit samstarfinu í kjölfar uppljóstrana um uppreist æru kynferðisbrotamanns. Bjarni sagði smáflokka „hrökklast frá um leið og þessi frægi vindur kemur aðeins í fangið.“
Góð hugmynd að fá sér hund
„Það er bara þannig að þeir sem fara inn á vettvang stjórnmálanna og nenna ekki að standa þar í báðar lappir þegar það gefur aðeins á bátinn, þeir eiga auðvitað ekkert að vera þar. Þeir eiga að fara í eitthvað allt annað eða eins og ég sagði um daginn: Það er líka góð hugmynd að fá sér hund. Hann er alltaf þakklátur.“
Auðvitað getum við gert margt í innra flokksstarfinu, viðurkenndi Bjarni. Að finna þyrfti leiðir til að ganga í takt við samfélagið. Eiga heiðarlegt samtal og ekki forðast átök.
„Trú á einstaklinginn mun varða leiðina,“ sagði hann. „Við höfum byggt hér upp stéttlaust samfélag. Þar sem jöfnuður er meiri en í nokkru öðru ríki.“
Og hann hélt áfram á þessum jafnaðarnótum:
„Við viljum ekki að börnin okkar fari út í daginn í sitt hvorn skólann, allt eftir því hver efni foreldranna eru.
Við viljum ekki að hér verði til samfélag þar sem þeir sem eru veikir þurfi að óttast það að hafa verra aðgengi að heilbrigðisþjónustu heldur en næsti maður eða fólkið í næsta húsi.
Við leggjum alla áherslu á að hér hafi allir jöfn tækifæri. Að við notum stóru opinberu kerfin okkar til að tryggja að enginn verði skilinn út undan.“