Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem lauk í gær. Hann varð efstur í prófkjörinu með 3.508 atkvæði í fyrsta sætið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra varð í öðru sæti. Hún fékk 186 færri atkvæði en Guðlaugur Þór í efsta sætið, sem hún hafði sóst eftir. Þau tvö munu því leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum í komandi kosningum.
Núverandi þingmenn flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, Brynjar Níelsson og Sigríður Á. Andersen sem leiddi listann 2017, sóttust bæði eftir öðru sætinu í prófkjörinu og þar af leiðandi oddvitasæti. Þau áform gengu ekki eftir.
Brynjar endaði í fimmta sæti sem þýðir að hann verður í baráttusæti á lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu, þiggi hann það. Sigríður, sem hóf kjörtímabilið sem dómsmálaráðherra en þurfti að segja af sér embætti vorið 2019, beið afhroð og varð ekki á meðal átta efstu í prófkjörinu. Hún er því á leið af þingi.
Í sjötta sæti varð Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem stendur með fimm þingmenn samanlagt í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Samkvæmt nýjustu könnunum getur flokkurinn vænst þess að ná fjórum til fimm þingmönnum inn í kjördæmum höfuðborgarinnar. Þeir Brynjar og Birgir verða því í baráttusætunum að óbreyttu.
Í sjöunda sæti varð Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, og í því áttunda almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson.
Alls greiddu 7.208 manns atkvæði í prófkjörinu.