Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem varaformaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fer fram 28. og 29. október. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar segist hann vilja freista þess að leggja jafnaðarmönnum lið og nýrri forystu flokksins lið. „Nokkuð ljóst er að Kristrún Frostadóttir alþingiskona, mun að óbreyttu taka við formennsku í flokknum. Það er fagnaðarefni og ég sé alla möguleika á því að jafnaðarmenn nái vopnum sínum og sterkri stöðu í pólitíkinni undir hennar leiðsögn og samhentri forystu með grunngildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi. En flokkar eru ekki bara formenn heldur einnig breidd í forystu. Og þess vegna er það mat mitt að ég geti komið baráttu jafnaðarmanna að gagni í stöðu varaformanns. Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Með unga en afar kröftuga þingkonu, Kristrúnu Frostadóttur, í stöðu formanns og með mig við hlið hennar í forystu; mann sem hefur verið þátttakandi pólitík um áratugaskeið og barist fyrir frelsi, jafnrétti og samstöðu jafnlengi undir merkjum jafnaðarmanna, þá hygg ég að mikilvæg breidd í forystu verði til staðar. Ennfremur er þannig gætt að jöfnuði kynja ólíkum aldri og búsetu í forystusveit.“
Kom aftur í vor eftir margra ára útlægð úr stjórnmálum
Guðmundur Árni, sem verður 67 ára í lok mánaðar, sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í tólf ár á síðustu öld, þar af sem bæjarstjóri í sjö. Guðmundur Árni steig upp úr þeim stóli 1993, fyrir 29 árum síðan, og settist á þing í kjölfarið fyrir Alþýðuflokkinn, og síðar Samfylkinguna, þar sem hann sat til 2005. Hann var varaformaður Alþýðuflokksins 1994-1996 og aftur árið 1999, í aðdraganda þess að Alþýðuflokkurinn gekk inn í Samfylkinguna.
Segist til í slaginn
Í færslunni í dag segir Guðmundur Árni að jafnaðarmenn vilji raunverulegan jöfnuð í samfélaginu, frelsi með ábyrgð og virka samhjálp. „Við viljum sjáum víðfeðmt velferðarkerfi, þar sem fólk getur komið sér þaki yfir höfuðið með viðráðanlegum hætti og notið traustrar samfélagsþjónustu við hæfi. En um leið þarf öflugt atvinnulíf og styrk efnahagsstjórn ekki síður að vera til staðar. Jafnaðarmenn standa vaktina fyrir almenning, enda höfnum við sérhagsmunum, en látum almannahagsmuni ráða för. Í mörg horn er að líta og verk að vinna í íslensku samfélagi. Ég vil hjálpa til í þeirri vegferð. Með nýjum formanni og forystu trúi ég því að góð sóknarfæri sé að finna fyrir okkur jafnaðarmenn á vettvangi stjórnmálanna og íslensks samfélags. Þar er sannarlega verk að vinna og eftirspurn eftir sjónarmiðum og leiðsögn jafnaðarmanna. Ég er til í slaginn!“
Heiða hætt við
Skömmu áður en Guðmundur Árni birti færslu sína birti Heiða Björg Hilmisdóttir, núverandi varaformaður Samfylkingarinnar, færslu á Facebook þar sem hún tilkynnti að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri eftir tæplega sex ára setu.
Þar tiltók Heiða að um síðustu mánaðamót hafi hún tekið við sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og að hún muni gegna því embætti næstu fjögur árin. „Þessu nýja mikilvæga hlutverki fylgir mikil ábyrgð og ég vill leggja mig alla fram um að standa undir því mikla trausti sem sveitarstjórnarfólk um allt land, úr öllum flokkum, hefur sýnt mér með kjöri mínu. Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag að sveitarfélögin séu samtaka og nái árangri til að tyggja hér jöfn tækifæri og lífsgæði um allt land, tryggja samkeppnishæft ísland. Síðan ég steig inni stjórnmálin hef ég hverju sinni reynt að leggjast á árarnar þar sem ég tel mig geta orðið að mestu gagni. Ég er í forystusveit í Borgarstjórn Reykjavíkur, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjölskyldukona og þeim hlutverkum ætla ég að forgangsraða á næstu misserum.“
Í ágúst sagði Heiða við mbl.is að hún vildi halda áfram sem varaformaður Samfylkingar.