Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, hefur haft samband við Valdimar Víðisson, oddvita Framsóknarflokksins í sveitarfélaginu, og óskað eftir viðræðum um myndun nýs meirihluta flokkanna tveggja þar.
Frá þessu greinir Guðmundur Árni í stöðuuppfærslu sem hann setti á Facebook í gær, en Samfylkingin jók fylgi sitt í Hafnarfirði verulega í kosningunum á laugardag, fékk 29 prósent atkvæða í stað 20,1 prósent árið 2018 og fjóra bæjarfulltrúa í stað þeirra tveggja sem flokkurinn hafði áður. Framsókn bætti líka við sig fylgi og manni, fékk 13,7 prósent atkvæða í stað átta prósenta árið 2018 og tvo menn í ellefu manna bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn, sem myndar núverandi meirihluta með Framsókn, tapaði hins vegar þremur prósentustigum af fylgi og fékk 30,7 prósent atkvæða. Hann er enn stærsti flokkurinn í Hafnarfirði en nú með jafnmarga fulltrúa og Samfylkingin í stað þeirra fimm sem hann hafði áður. Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, er núverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Í stöðuuppfærslu sinni í gærkvöldi segir Guðmundur Árni að fólkið hafi talað í kosningunum. „Í Hafnarfirði stimpluðum við jafnaðarmenn okkur rækilega inn og fengum fjóra bæjarfulltrúa kjörna - tvöfölduðum tölu þeirra eins og markmiðið var. [...] Ég hef haft samband við oddvita Framsóknarflokksins og óskað eftir viðræðum um myndun nýs meirihluta XS og XB í Hafnarfirði. En það eru flokkarnir sem sigruðu og voru kallaðir til verka, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn tapaði umtalsverðu fylgi. Við sjáum hvað setur. Það væri gott fyrir Hafnfirðinga að fá félagshyggjumeirihluta í Fjörðinn. Við jafnaðarmenn erum nú sem fyrr tilbúnir í verkin.“
Kæru vinir. Fólkið hefur talað. Kosningaúrslit liggja fyrir. Í Hafnarfirði stimpluðum við jafnaðarmenn okkur rækilega...
Posted by Guðmundur Árni Stefánsson on Sunday, May 15, 2022