„Flokkur fólksins segir lokum öllu núna strax,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á þingi í dag. Guðmundur var harðorður í garð ríkisstjórnarinnar í ræðu sinni sem Guðmundur hélt undir fundarliðnum Störf þingsins. Hann sagði klúður ríkisstjórnar í vörnum gegn kórónuveirunni vera komið í ljós.
„Því miður hefur ríkisstjórnin skitið upp á bak í COVID málinu og það bæði í bóluefnamálinu og þá sérstaklega í vörnum gegn veirunni á landamærum,“ sagði Guðmundur um aðgerðir gegn kórónuveirunni. Þá sagði hann landamærin „mígleka“ og að þau hafi gert það í langan tíma.
Forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon sá ástæðu til að gera alvarlegar athugasemdir við orðfæri Guðmundar Inga að ræðu lokinni. „Forseti verður að hvetja háttvirtan þingmann til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með orðbragði sem er í húsum hæft,“ sagði Steingrímur meðal annars.
Flokkur fólksins hafi haft rétt fyrir sér í heilt ár
Guðmundur sagðist vilja að ríkisstjórnin gripi til harðari aðgerða vegna veirunnar og að hingað til hafi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar verið óboðleg og hún horft of mikið til meðalhófs. „Hvað næst? Rauður dregill fyrir brasilísku veiruna á Austfjörðum því þar grasserar hún um borð í skipi með súrál. Það gagnast ekki ríkisstjórninni að vera áfram meðalhófssúr yfir gangi mála eða álkuleg yfir að hafa verið of sein að loka landamærunum fyrir bresku veirunni, því betra er seint en aldrei,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur vísaði í viðtal Kastljóss við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, sem tekið var fyrir um ári síðan þar sem Inga kallaði eftir því að landamærunum yrði lokað. „Flokkur fólksins segir lokum öllu núna strax. Inga Sæland, formaður flokksins, sagði þetta fyrir ári síðan í Kastljósi og var höfð að háði og spotti fyrir. En miðað við stöðuna í dag þá höfðum við í Flokki fólksins rétt fyrir okkur, allan tímann, já fullkomlega rétt fyrir okkur,“ sagði Guðmundur.
Inga Sæland tók í sama streng á Facebook síðu sinni fyrr í dag þar sem hún sagði ríkisstjórnina vanhæfa og að hún ætti að „pakka saman.“