Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur gert athugasemdir við ummæli talskonu framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna um bréfið sem hann sendi frá sér í gær. Gunnar Bragi segir í samtali við mbl.is að talskonan Maja Kocijanic hafi ekki farið rétt með og að búið sé að hafa samband við hana vegna þess.
Á blaðamannafundi framkvæmdastjórnarinnar fyrr í dag sagði Kocijanic að Ísland hefði ekki formlega dregið umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu til baka. Viðræðum hefði verið frestað um tvö ár, en ef stjórnvöld ákvæðu að draga umsóknina formlega til baka þyrfti að leggja þá ákvörðun fyrir ráðherraráðið. Það myndi svo taka ákvörðun um framhaldið.
„Það er alveg greinilegt að þessi ágæti talsmaður er engan veginn með það á hreinu sem stendur í bréfinu enda setur hún þarna fram fullyrðingar um atriði sem hvergi koma þar fram,“ segir Gunnar Bragi við mbl.is. Á hann þá við ummælin um að í raun hafi viðræðum verið frestað um tvö ár, vegna þess að aldrei sé minnst á tveggja ára tímabil í bréfi ríkisstjórnarinnar.
Hér má sjá ummæli Kocijanic um Ísland á fundinum fyrr í dag.