Samtök skattgreiðenda, félagasamtök sem berjast fyrir lægri sköttum, hafa sett upp vef þar sem leiðtogum allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins er stillt upp í spilakassaleik. Með því að ýta á einn takka kemur síðan upp einhver samsetning af fimm leiðtogum stjórnmálaflokka, undir yfirskriftinni „5 flokka draumastjórnin þín!“.
Ekkert á vefsíðunni gefur til kynna hver stendur fyrir þessum leik nema lénið, sem er undir hatti síðunnar skattgreiðendur.is. Sú síða hefur ekki verið uppfærð síðan skömmu fyrir kosningarnar árið 2016, þá með tengli á auglýsingu sem varaði við því að vinstri stjórn kæmist til valda á Íslandi.
Á síðunni kemur fram að Skafti Harðarson rekstrarstjóri á Seltjarnarnesi sé formaður Samtaka skattgreiðenda. Hann játar því í samtali við Kjarnann að samtökin hafi ákveðið að setja þennan leik í loftið til að vekja athygli á sínum málstað fyrir kosningar.
„Þetta er fyrst og fremst gert til að hafa gaman af,“ segir Skafti í samtali við blaðamann, spurður um ástæðuna. „Þarna erum við að setja saman þá ríkisstjórn sem lofar hvað mestum skattahækkunum og sjá hvernig fólki líkar,“ bætir hann við.
Hann segist telja það eðlilegt að samtökin reyni að vekja athygli á sínum málstað fyrir kosningar rétt eins og aðilar á borð við ASÍ, BSRB og fleiri hafi gert. Hann segir 2-300 manns styrkja samtökin með frjálsum framlögum á hverju ári, en segir þó sömuleiðis við Kjarnann að uppsetning vefsíðunnar með stjórnarskipta-spilakassanum hafi ekki kostað neitt fé.
Gunnar Smári birtist alltaf
Samkvæmt athugun Kjarnans á þessum leik er ekki hægt að snúa hjólinu án þess að Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins sé einn af stjórnmálaleiðtogunum fimm sem koma upp á hjóli spilakassans.
„Er það ekki bara af því að þú hefur ekki verið nógu lengi fyrir framan rúllettuna?“ spyr Skafti þegar blaðamaður nefnir þetta. Síðan bætir hann því við að markmiðið hafi verið að setja fram þá ríkisstjórn sem líklegust væri til þess að hækka skatta mest og þar horfi hann á sósíalista fremsta í flokki.
Auglýsingar á vegum Samtaka skattgreiðenda í aðdraganda kosninga hafa áður vakið athygli, en fyrir kosningarnar árið 2017 keyptu samtökin auglýsingar bæði í útvarpi og á samfélagsmiðlum þar sem varað var við skattatillögum nokkurra stjórnmálaflokka sem þá buðu fram.
Í samtali við Vísi eftir kosningarnar 2017 sagði Skafti að samtökin sem hann stýrir og stofnuð voru árið 2012 hefðu engin tengsl við stjórnmálaflokka, þrátt fyrir að hann sjálfur væri flokksbundinn sjálfstæðismaður og hinir stjórnarmennirnir tveir í samtökunum væru sömuleiðis stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Í takti við varúðarorð frá forystu Sjálfstæðisflokksins
Skilaboðin sem felast í rúllettu Samtaka skattgreiðenda ríma ágætlega við málflutning forystufólks í Sjálfstæðisflokknum þessa dagana, um að flokkar séu of margir og vandasamt geti orðið að mynda stöðuga ríkisstjórn eftir kosningar.
Bjarni Benediktsson formaður flokksins varaði til dæmis við því að gera þyrfti miklar málamiðlanir við stjórn landsins í viðtali í Dagmálum á vef mbl.is, sem birtist í gær.
„Þetta er bara sundrung, þetta er ákveðinn glundroði. Það er til mikils tjóns, eins og ég horfi á hlutina, að það þurfi að gera jafnmiklar málamiðlanir við stjórnun landsins eins og stefnir í. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra,“ sagði Bjarni.