Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands og oddviti hans í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi kosningum, sendi í gær kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna framkvæmdar á utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir. Hann telur að framboð Sósíalistaflokksins njóti ekki jafnræðis við kynningu á kjörstað.
Tilefnið er að kjósandi leitað til Sósíalistaflokksins eftir að hann hugðist kjósa utan kjörfundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi, en að starfsmaður embættisins hafi sagt honum að það væri ekki kominn listabókstafur fyrir Sósíalistaflokkinn.
Í kvörtun Gunnars Smára segir að við eftirgrennslan hafi fengist þær upplýsingar að þegar kjósandi komi til að kjósa hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fái hann að skoða blað með listabókstöfum þar sem listabókstafur Sósíalistaflokksins sé aðgreindur frá listabókstöfum flokka sem buðu fram síðast með smáum texta og útskýringum sem gefi til kynna að framboð Sósíalistaflokksins sé í öðrum flokki en hinna.
Gunnar Smári hafði samband við dómsmálaráðuneytið vegna málsins sem svaraði því til að ráðuneytið hefði átt samtal við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu sem „hafnar því að það verklag sem þú lýsir í tölvupóstinum hér að neðan sé viðhaft.“
Í svari dómsmálaráðuneytisins við erindi Gunnars Smára sagði að hægt væri að kvarta yfir stjórnsýslu sýslumanns til umboðsmanns Alþingis. Það gerði hann í gær.