Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor og utanaðkomandi nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, hefði „fremur kosið að hækka vexti bankans um 1 prósentu“ við síðustu vaxtaákvörðun, en studdi þó eins og aðrir nefndarmenn í peningastefnunefnd tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að vextirnir yrðu hækkaðir um 0,75 prósentustig.
Þetta má lesa í fundargerð peningastefnunefndar, sem birt var á vef Seðlabankans síðdegis í gær, en fundargerðirnar eru jafnan birtar tveimur vikum frá því að vaxtaákvörðun er kynnt.
Aðra vaxtaákvörðunina í röð vildi Gylfi þannig sjá hækkun vaxta sem var umfram tillögu seðlabankastjóra og niðurstöðu nefndarinnar, en í júní hefði Gylfi kosið 1,25 prósentustiga vaxtahækkun, á meðan að vextir voru hækkaðir um 1 prósentu.
Í fundargerðinni frá því í ágúst segir að nefndarmenn hafi allir verið þeirrar skoðunar að halda þyrfti áfram að hækka vexti Seðlabankans og að rætt hefði verið um hækkun á bilinu 0,5 til 1 prósentustig á fundinum.
Í þessu mati nefndarmanna vó þungt að innlend eftirspurn hefði reynst sterkari en nefndin hafði búist við, einkaneysla hefði aukist mun meira en nefndarmenn höfðu gert ráð fyrir og svo virtist sem heimili hefðu dregið hraðar úr sparnaði en áætlað var.
„Að mati nefndarmanna endurspeglaðist þetta m.a. í að spenna hefði aukist verulega á vinnumarkaði á alla mælikvarða. Verðbólguhorfur hefðu því áfram versnað. Að mati nefndarinnar væri einnig áhyggjuefni að verðbólguvæntingar hefðu hækkað enn frekar enda gæti það aukið hættuna á að fyrirtæki, í krafti mikillar eftirspurnar og vegna undangenginna hækkana launa og aðfangakostnaðar, veltu auknum kostnaði í meira mæli út í verðlag,“ segir í fundargerðinni.
Talað um að áhrif á húsnæðismarkað væru ekki komin að fullu fram
Í fundargerð peningastefnunefndar segir að helstu rökin fyrir því að „taka minna skref en ella“ við síðustu vaxtahækkun, hafi verið sú að hröð vaxtahækkun bankans undanfarið væri farin að hafa áhrif, meðal annars á húsnæðismarkaðinn, en jafnframt það að áhrifin á þann markað væru ekki að fullu komin fram.
Að auki horfði nefndin til þess að miklar hækkanir á framfærslukostnaði og horfur um minni kaupmátt gætu leitt til viðsnúnings á efnahagshorfu og til þess að alþjóðlegar efnahagshorfur höfðu áfram versnað milli funda sem gæti haft áhrif á horfur um útflutning hér á landi.
Þá hefðu heimili og fyrirtæki víða aldrei verið jafn svartsýn um horfur í efnahagsmálum og enn fremur hefði alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð lækkað undanfarið sem drægi úr verðbólguþrýstingi.
Skýr merki um að hagkerfið væri að ofhitna
Rökin sem komu hins vegar fram fyrir því að taka stærra skref en raunin varð voru þau að nauðsynlegt væri að gefa því meira vægi hversu hratt spenna á vinnumarkaði hefði aukist og að þar væru skýr merki um að hagkerfið væri að ofhitna. Bent var á að ef taumhaldið yrði ekki hert nægjanlega hratt væru meiri líkur á að mikil verðbólga festist í sessi og erfiðara yrði að ná verðbólgu niður í markmið.
Gylfi Zoega skrifaði grein um vaxtahækkanir Seðlabankans í nýjasta tölublaði Vísbendingar og kom þar meðal annars fram að þegar verðbólga færi vaxandi væri mikilvægt að kippa sem fyrst í taumana í stað þess að horfa upp á hana stigmagnast.
„Það er auðveldara að ná verðbólgu niður fyrr en seinna en slíkt krefst þess að fyrstu skrefin í vaxtahækkunarferli séu stærri en þau sem á eftir koma. Sú aukning verðbólgu sem varð í vor vegna styrjaldar í Úkraínu og sóttvarnaraðgerðir í Kína var ekki fyrirséð en reynslan frá áttunda áratug síðustu aldar kennir okkur að tímabundin framboðsáföll geta valdið langvarandi verðbólgu ef spenna er mikil á innlendum vinnumarkaði,“ skrifaði Gylfi meðal annars í greininni.