Gjafir til opinberra starfsmanna þurfa að vera innan skynsamlegra marka en snúast á endanum um matsatriði að mati Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Bjarna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun hvort hann teldi það eðlilegt að starfsmenn Bankasýslunnar þiggi gjafir í tengslum við störf sín?
Minnisblað um þær gjafir sem forstjóri og starfsmenn Bankasýslu ríkisins hafa þegið af fjármálafyrirtækjum var skilað til fjárlaganefndar Alþingis í byrjun október, næstum sex mánuðum eftir að það var boðað. Í því er útlistað það sem hópurinn þáði að gjöf frá fjármálafyrirtækjum sem mörg hver fengu svo arðbær hlutverk í ferlinu við að selja Íslandsbanka.
Jón Gunnar Ólafsson, forstjóri Bankasýslunnar, og Lárus Blöndal, stjórnarmaður stofnunarinnar, sátu fyrir svörum á opnum fundi fjárlaganefndar 27. apríl. Boðað var til fundarins vegna mikillar gagnrýni á sölu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn á 52,65 milljarða króna. Alls 207 fjárfestar fengu þá að kaupa hluti á verði sem var samanlagt 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði bankans í lokuðu útboði sem fór fram samkvæmt tilboðsleið.
„Við fengum þarna einhverjar vínflöskur og flugelda og konfektkassa. Svo náttúruleg eigum við einhverja hádegisverði og kvöldverði með ráðgjöfum og svo framvegis. En ekkert annað,“ sagði Jón Gunnar þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, spurði hann hvort hann hefði þegið boð, gjafir, risnu eða annað slíkt í kjölfar eða í aðdraganda beggja ´tboða sem fram hafa farið með hluti ríkisins í Íslandsbanka.
Nefndarmenn fóru í kjölfarið fram á frekari svör um málið og Jón Gunnar sagðist ætla að taka saman minnisblað um þessar gjafir og greiddu hádegisverði. Minnisblaðið er dagsett 7. október, nærri sex mánuðum eftir fund nefndarinnar.
20 vinnufundir, yfirleitt í hádeginu, þar sem veitingar voru í boði með ýmsum fjármálafyrirtækjum, tveir kvöldverðir, tækifærisgjafir, til að mynda vínflöskur, konfektkassar, kokteilasett, „stöðluð jólagjöf“ og flugeldur eru tiltekin í minnisblaðinu sem gjafir sem þáðar voru frá fjármálafyrirtækjum sem mörg hver fengu svo arðbær hlutverk í ferlinu við að selja Íslandsbanka.
„Er það eðlilegt að starfsmenn bankasýslunnar þiggi gjafir í tengslum við störf sín?“
„Þessar gjafir sem samtals hlaupa á hundruðum þúsunda króna komu frá umsjónaraðilum, fjármálaráðgjöfum, lögfræðilegum ráðgjöfum, söluráðgjöfum og söluaðilum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa átt aðkomu að vinnu bankasýslunnar við sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka,“ sagði Þórhildur Sunna.
Hún vísaði í yfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna frá því í apríl þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum Íslandsbanka að sinni þar sem segir meðal annars að traust og gagnsæi verði að ríkja um sölu á eignum ríkisins. Þingmaðurinn spurði svo fjármála- og efnhagsráðherra: „Er það eðlilegt að starfsmenn bankasýslunnar þiggi gjafir í tengslum við störf sín?“
„Stutta svarið við þessu er það að ef um slíkar gjafir er að ræða þurfa þær að vera innan hóflegra marka og í einhverjum eðlilegum tengslum við störfin,“ svaraði Bjarni, sem sagðist ekki telja að hádegisverður eigi ekki að varpa rýrð á störf Bankasýslunnar að mati Bjarna. Starfsmenn Bankasýslunnar þáðu einmitt 20 hádegisverði, að því er fram kemur í minnisblaðinu.
Þá sagði hann það viðskiptasamband sem Þórhildur Sunna væri að vísa í, Bankasýslan og söluráðgjafar, snúist í raun um viðskiptamál og hafi ekkert með hina eiginlegu sölu ríkiseignarinnar að gera.
„Hérna er væntanlega verið að gefa í skyn að þarna séu menn að kaupa sér einhverja velvild til þess að fá að taka þátt í sölumeðferðinni og þiggja fyrir það einhverja þóknun. Það er stjórn Bankasýslunnar sem ber ábyrgð á heildareftirliti með slíkri samningagerð og mögulegum hagsmunaárekstrum sem kunna að skapast.“
„En stutta svarið við því hvort það sé heppilegt eða æskilegt að um sé að ræða gjafir, þóknanir að einhverju tagi, hvort sem það er að það er í formi hádegisverðar eða öðrum hætti, þá er stutta svarið mitt að það ber að fara mjög varlega í öllu slíku,“ sagði Bjarni.