Hækkun á smjöri mun valda verðbólgu og meiri verðbólgu en tilefni er til. Hækkunin er rúmlega þreföld hækkun vísitölu neysluverðs. Þetta segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, í aðsendri grein í Fréttablaðinu.
Finnur gerir ákvörðun verðlagsnefndar búvara að umtalsefni í greininni, en nýlega var ákveðið að hækka verð á smjöri um 11,6%. Smjör hefur ekki hækkað í verði frá því í október 2013. „Athygli vekur að lítill hluti hækkunarinnar gengur til bænda og auknar álögur eru settar á neytendur. Því er eðlilegt að spyrja fyrir hvern þessi hækkun er. Vísitala neysluverðs hækkaði frá október 2013 þar til nú um 3,56%. Smjörhækkunin er rúmlega þreföld hækkun vísitölu neysluverðs. Hækkunin mun valda verðbólgu, meiri en tilefni er til.“
Finnur setur málið í samhengi við lækkun húsnæðislána, sem ríkisstjórnin réðst í á kjörtímabilinu, og það að stór hluti húsnæðislána er verðtryggður. „Því skiptir miklu fyrir heimilin að verðbólga sé lág, hvert prósentustig kostar þau 13-14 milljarða í auknum skuldum. Aukist verðbólga um 1% varanlega þurrkast ávinningur, vegna þessarar viðamiklu aðgerðar, út á 5-6 árum.“
Ákvörðun nefndarinnar, sem sé tímaskekkja og barn síns tíma, valdi því tvöföldum skaða. Neytendur borgi meira og lánin hækki.
Það skipti miklu máli nú að aðhalds sé gætt í verðlagsmálum og verðbólgu haldið í skefjum, ekki síst vegna nýgerðra kjarasamninga. Með þetta í huga sé ákvörðun stjórnvalda um að hækka smjör svona mikið óskiljanleg. „Hún er óábyrg og vanhugsuð. Tímasetningin gat ekki verið verri.“ Eitt sé að stjórnvöld taki ákvörðun um verðlagningu á einstakri vöru sjálfstæðs fyrirtækis, en alvarlegra að stjórnvöld sýni ekki meiri ábyrgð en að hækka verð á nauðsynjavöru „um þrefalda almenna verðlagsþróun á mjög viðkvæmum tímapunkti.“ Hann skorar að lokum á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína um hækkun á mjólkurvörum og sýna þannig gott fordæmi, sem muni eiga þátt í að auka kaupmátt heimila á Íslandi.