Halldóra Mogensen þingmaður Pírata og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG tókust á um hin ýmsu mál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn hóf mál sitt á því að rifja upp umræður um stefnuræðu forsætisráðherra í september árið 2017, örfáum mánuðum áður en hún tók við embætti forsætisráðherra. Þar sagði Katrín um ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti.
Halldóra benti á að þann 20. júní 2018 hefði umboðsmaður Alþingis skilað áliti þar sem hann lýsti því hvernig örorkulífeyrisþegar sem hafa verið búsettir í öðru landi innan EES hefðu þurft að lifa við ólöglegar skerðingar í áratug og jafnvel lengur. „Félagsmálaráðuneytið staðfesti þennan úrskurð og lofaði leiðréttingu. Í dag, rúmum þremur árum síðar, bíða hundruð öryrkja enn eftir réttlætinu. Meira en helmingur þeirra sem urðu fyrir ólöglegum skerðingum bíða enn eftir leiðréttingunni sem þeim var lofað. 96 þeirra dóu á meðan þeir biðu eftir réttlætinu,“ sagði hún.
Hélt hún upprifjuninni áfram og benti á að aðeins örfáum mánuðum áður en forsætisráðherra tók við stjórnartaumum núverandi ríkisstjórnar hefði hún sagt að stjórnmálamenn mættu aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þyrftu að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þyrfti til. Annars væri hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvínaði og þá ábyrgð þyrftu allir að axla.
„Nú er þetta fólk enn þá að bíða. Það er því ekki að sjá að hæstvirtur ráðherra hafi beitt sér nægilega vel fyrir réttlætinu,“ sagði Halldóra og spurði Katrínu hvort það væri vegna þess að ráðherrann hefði ekki viljað beita sér eða hefði hún bara ekki getað beitt sér með hendurnar bundnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þar sem Bjarni Benediktsson héldi um pyngjuna.
Dregið úr skerðingum hér á landi
Katrín svaraði og sagði að varðandi búsetuskerðingar sem dæmdar voru ólögmætar þá gæti hún því miður ekki svarað nákvæmlega hvenær þeim leiðréttingum myndi ljúka. Það væri á hendi Tryggingastofnunar og Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra.
„Hæstvirtur félagsmálaráðherra fer með þennan málaflokk og ég vænti þess að að því sé unnið. Þetta snýst ekki um viljaleysi stjórnvalda til að leiðrétta þessar búsetuskerðingar heldur að þær verði gerðar upp með réttmætum hætti samkvæmt því sem félagsmálaráðherra hefur farið yfir ítrekað hér í þingsal,“ sagði hún.
Katrín sagði að Halldóra gæfi í skyn í forsendu spurningar hennar að ekkert hefði verið gert í málefnum öryrkja á kjörtímabilinu.
„Það er auðvitað rangt hjá háttvirtum þingmanni. Hér hefur verið dregið úr skerðingum vegna atvinnutekna, sem hefur verið eitt stærsta hagsmunamál og baráttumál Öryrkjabandalagsins. Það var gert núna en við þeim hafði ekki verið hreyft síðan þær voru settar á fyrir 10 til 12 árum. Úr þeim var dregið. Á sama tíma var sömuleiðis ráðist í þá aðgerð að draga úr skerðingum milli bótaflokka. Markmið þeirrar leiðréttingar og breytingar var að auka tekjur tekjulægsta hópsins innan hóps öryrkja. Enn þá bíður að ljúka við heildarendurskoðun á kerfinu sem ekki var gert 2016, illu heilli að mínu viti, enda má sjá þegar sagan er skoðuð og tekjur ólíkra hópa skoðaðar, til að mynda aldraðra og öryrkja, að þar standa öryrkjar höllum fæti til að mynda gagnvart öldruðum. Þannig er nú staða málsins. Það er mjög brýnt að ljúka þessari heildarendurskoðun. Ég vonast til þess að það verði gert snemma á næsta kjörtímabili.
En hér er ekki hægt að tala eins og ekki hafi verið komið til móts við mikilvæg baráttumál öryrkja sem snúast einmitt um að draga úr skerðingum og gera þetta kerfi gagnsærra og réttlátara,“ sagði hún.
Spurði hvernig á þjóðin ætti að geta trúað orði sem ráðherra segir
Halldóra kom aftur í pontu og sagði að ráðherra væri „vel Morfís-æfð og mjög sniðug í að svara ekki spurningum sem hún er spurð“.
„Ég var ekkert að segja að það væri ekki búið að gera neitt fyrir öryrkja. Ég var bara að segja að það væri hópur af öryrkjum sem biði eftir leiðréttingu og biði eftir réttlætinu. Í þessari frægu ræðu árið 2017, þegar forsætisráðherra sagði að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti, sagði hún að það sama ætti við um fólk á flótta sem hingað leitar. Þetta er sagt réttum tveimur mánuðum áður en hún fer í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, með háttvirtum þingmanni Sigríði Á. Andersen í dómsmálaráðuneytinu. Það er því augljóst að það hefur ekki verið hátt á forgangslista hæstvirts ráðherra að beita sér fyrir réttlætinu í málum fólks á flótta,“ sagði Halldóra.
Spurði hún Katrínu, sem allavega í orði á tyllidögum segðist vera annt um að efla traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi, hver ábyrgð ráðherrans væri þegar kemur að því að hreinlega standa við orð sín. „Hvernig á þjóðin í ljósi sögunnar að geta trúað einu einasta orði sem hæstvirtur ráðherra segir nú í aðdraganda kosninga?“ spurði hún.
Auðvitað „ekkert annað en fabúleringar“
Katrín brást við orðum Halldóru og sagðist ætla að sleppa því að gera að umtalsefni mælskubrögð þingmannsins „þó að hún kjósi að koma hér upp með einhverjar slíkar fabúleringar sem eru auðvitað ekkert annað en fabúleringar“.
„Staðreyndin er sú, eins og ég fór yfir áðan, að komið hefur verið til móts við tekjulægstu hópana í þessu samfélagi allt þetta kjörtímabil með því að lækka skatta á tekjulægstu hópana, með því að hækka barnabætur á tekjulægstu hópana, með því að ráðast í sértækar úrbætur bæði hvað varðar aldraða og öryrkja innan almannatryggingakerfisins. Það eru staðreyndir sem háttvirtur þingmaður fær ekki hrakið og leggst því í mælskubrögð,“ sagði hún.
Hvað varðar fólk á flótta sagði hún að málsmeðferðartími hér á landi hefði verið styttur aftur á þessu kjörtímabili. „Tekið hefur verið á móti fleirum á þessu kjörtímabili en kjörtímabilinu á undan. Hér er tekið á móti hlutfallslega fleirum en annars staðar á Norðurlöndum. Það er það sem hefur í raun og veru gerst, hæstvirtur forseti, óháð öllum mælskubrögðum,“ sagði hún að lokum.