„Hæstvirtur forsætisráðherra er vel Morfís-æfð“

Forsætisráðherra og þingmaður Pírata ræddu bótaskerðingu örorkulífeyrisþega, traust á stjórnmálum og mál fólks á flótta á þingi í dag. Þingmaðurinn sagði ráðherrann vel Morfís-æfða en forsætisráðherrann sakaði þingmanninn um mælskubrögð og fabúleringar.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Auglýsing

Hall­dóra Mog­en­sen þing­maður Pírata og Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra og for­maður VG tók­ust á um hin ýmsu mál í óund­ir­búnum fyr­ir­spurna­tíma á Alþingi í dag.

Þing­mað­ur­inn hóf mál sitt á því að rifja upp umræður um stefnu­ræðu for­sæt­is­ráð­herra í sept­em­ber árið 2017, örfáum mán­uðum áður en hún tók við emb­ætti for­sæt­is­ráð­herra. Þar sagði Katrín um rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar að stjórn­völd ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir rétt­læti.

Hall­dóra benti á að þann 20. júní 2018 hefði umboðs­maður Alþingis skilað áliti þar sem hann lýsti því hvernig örorku­líf­eyr­is­þegar sem hafa verið búsettir í öðru landi innan EES hefðu þurft að lifa við ólög­legar skerð­ingar í ára­tug og jafn­vel leng­ur. „Fé­lags­mála­ráðu­neytið stað­festi þennan úrskurð og lof­aði leið­rétt­ingu. Í dag, rúmum þremur árum síð­ar, bíða hund­ruð öryrkja enn eftir rétt­læt­inu. Meira en helm­ingur þeirra sem urðu fyrir ólög­legum skerð­ingum bíða enn eftir leið­rétt­ing­unni sem þeim var lof­að. 96 þeirra dóu á meðan þeir biðu eftir rétt­læt­in­u,“ sagði hún.

Auglýsing

Hélt hún upp­rifj­un­inni áfram og benti á að aðeins örfáum mán­uðum áður en for­sæt­is­ráð­herra tók við stjórn­ar­taumum núver­andi rík­is­stjórnar hefði hún sagt að stjórn­mála­menn mættu aldrei vísa í ríkj­andi kerfi til að rök­styðja bið eftir rétt­læti. Stjórn­mála­menn þyrftu að vera reiðu­búnir að beita sér stöðugt fyrir rétt­læt­inu og breyta kerf­inu ef það þyrfti til. Ann­ars væri hættan sú að traust fólks á hinu lýð­ræð­is­lega sam­fé­lagi dvín­aði og þá ábyrgð þyrftu allir að axla.

„Nú er þetta fólk enn þá að bíða. Það er því ekki að sjá að hæst­virtur ráð­herra hafi beitt sér nægi­lega vel fyrir rétt­læt­in­u,“ sagði Hall­dóra og spurði Katrínu hvort það væri vegna þess að ráð­herr­ann hefði ekki viljað beita sér eða hefði hún bara ekki getað beitt sér með hend­urnar bundnar í rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokknum þar sem Bjarni Bene­dikts­son héldi um pyngj­una.

Dregið úr skerð­ingum hér á landi

Katrín svar­aði og sagði að varð­andi búsetu­skerð­ingar sem dæmdar voru ólög­mætar þá gæti hún því miður ekki svarað nákvæm­lega hvenær þeim leið­rétt­ingum myndi ljúka. Það væri á hendi Trygg­inga­stofn­unar og Ásmundar Ein­ars Daða­sonar félags- og barna­mála­ráð­herra.

„Hæst­virtur félags­mála­ráð­herra fer með þennan mála­flokk og ég vænti þess að að því sé unn­ið. Þetta snýst ekki um vilja­leysi stjórn­valda til að leið­rétta þessar búsetu­skerð­ingar heldur að þær verði gerðar upp með rétt­mætum hætti sam­kvæmt því sem félags­mála­ráð­herra hefur farið yfir ítrekað hér í þingsal,“ sagði hún.

Katrín sagði að Hall­dóra gæfi í skyn í for­sendu spurn­ingar hennar að ekk­ert hefði verið gert í mál­efnum öryrkja á kjör­tíma­bil­inu.

Katrín Jakobsdóttir Mynd: Bára Huld Beck

„Það er auð­vitað rangt hjá hátt­virtum þing­manni. Hér hefur verið dregið úr skerð­ingum vegna atvinnu­tekna, sem hefur verið eitt stærsta hags­muna­mál og bar­áttu­mál Öryrkja­banda­lags­ins. Það var gert núna en við þeim hafði ekki verið hreyft síðan þær voru settar á fyrir 10 til 12 árum. Úr þeim var dreg­ið. Á sama tíma var sömu­leiðis ráð­ist í þá aðgerð að draga úr skerð­ingum milli bóta­flokka. Mark­mið þeirrar leið­rétt­ingar og breyt­ingar var að auka tekjur tekju­lægsta hóps­ins innan hóps öryrkja. Enn þá bíður að ljúka við heild­ar­end­ur­skoðun á kerf­inu sem ekki var gert 2016, illu heilli að mínu viti, enda má sjá þegar sagan er skoðuð og tekjur ólíkra hópa skoð­að­ar, til að mynda aldr­aðra og öryrkja, að þar standa öryrkjar höllum fæti til að mynda gagn­vart öldruð­um. Þannig er nú staða máls­ins. Það er mjög brýnt að ljúka þess­ari heild­ar­end­ur­skoð­un. Ég von­ast til þess að það verði gert snemma á næsta kjör­tíma­bili.

En hér er ekki hægt að tala eins og ekki hafi verið komið til móts við mik­il­væg bar­áttu­mál öryrkja sem snú­ast einmitt um að draga úr skerð­ingum og gera þetta kerfi gagn­særra og rétt­lát­ara,“ sagði hún.

Spurði hvernig á þjóðin ætti að geta trúað orði sem ráð­herra segir

Hall­dóra kom aftur í pontu og sagði að ráð­herra væri „vel Mor­fís-æfð og mjög sniðug í að svara ekki spurn­ingum sem hún er spurð“.

„Ég var ekk­ert að segja að það væri ekki búið að gera neitt fyrir öryrkja. Ég var bara að segja að það væri hópur af öryrkjum sem biði eftir leið­rétt­ingu og biði eftir rétt­læt­inu. Í þess­ari frægu ræðu árið 2017, þegar for­sæt­is­ráð­herra sagði að stjórn­völd ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir rétt­læti, sagði hún að það sama ætti við um fólk á flótta sem hingað leit­ar. Þetta er sagt réttum tveimur mán­uðum áður en hún fer í rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um, með hátt­virtum þing­manni Sig­ríði Á. And­er­sen í dóms­mála­ráðu­neyt­inu. Það er því aug­ljóst að það hefur ekki verið hátt á for­gangs­lista hæst­virts ráð­herra að beita sér fyrir rétt­læt­inu í málum fólks á flótta,“ sagði Hall­dóra.

Spurði hún Katrínu, sem alla­vega í orði á tylli­dögum segð­ist vera annt um að efla traust fólks á hinu lýð­ræð­is­lega sam­fé­lagi, hver ábyrgð ráð­herr­ans væri þegar kemur að því að hrein­lega standa við orð sín. „Hvernig á þjóðin í ljósi sög­unnar að geta trúað einu ein­asta orði sem hæst­virtur ráð­herra segir nú í aðdrag­anda kosn­inga?“ spurði hún.

Auð­vitað „ekk­ert annað en fabúler­ing­ar“

Katrín brást við orðum Hall­dóru og sagð­ist ætla að sleppa því að gera að umtals­efni mælsku­brögð þing­manns­ins „þó að hún kjósi að koma hér upp með ein­hverjar slíkar fabúler­ingar sem eru auð­vitað ekk­ert annað en fabúler­ing­ar“.

„Stað­reyndin er sú, eins og ég fór yfir áðan, að komið hefur verið til móts við tekju­lægstu hópana í þessu sam­fé­lagi allt þetta kjör­tíma­bil með því að lækka skatta á tekju­lægstu hópana, með því að hækka barna­bætur á tekju­lægstu hópana, með því að ráð­ast í sér­tækar úrbætur bæði hvað varðar aldr­aða og öryrkja innan almanna­trygg­inga­kerf­is­ins. Það eru stað­reyndir sem hátt­virtur þing­maður fær ekki hrakið og leggst því í mælsku­brögð,“ sagði hún.

Hvað varðar fólk á flótta sagði hún að máls­með­ferð­ar­tími hér á landi hefði verið styttur aftur á þessu kjör­tíma­bili. „Tekið hefur verið á móti fleirum á þessu kjör­tíma­bili en kjör­tíma­bil­inu á und­an. Hér er tekið á móti hlut­falls­lega fleirum en ann­ars staðar á Norð­ur­lönd­um. Það er það sem hefur í raun og veru ger­st, hæst­virtur for­seti, óháð öllum mælsku­brögð­u­m,“ sagði hún að lok­um.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiInnlent