Blikur eru á lofti í Bosníu og Hersegóvínu, samkvæmt nýlegri skýrslu æðsta sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna í landinu, Christian Schmidt. Hann segir ríkið í reynd standa frammi fyrir mestu tilvistarógn sinni frá lokum hins blóðuga borgarastríðs sem stóð frá 1992-1995 og að án viðbragða alþjóðasamfélagsins sé möguleiki á því að Dayton-friðarsamkomulagið trosni upp – og þar með stoðir hins sameinaða ríkis.
Ástæðan fyrir þessum áhyggjum Schmidts eru nýlegar gjörðir og yfirlýsingar æðstu ráðamanna Serba innan bosníska ríkisins. Fyrr í haust lýsti Milorad Dodik, sem er forseti serbneska þjóðarbrotsins í hinu þrískipta forsetaembætti Bosníu, því yfir að ætlan Serba væri að kljúfa sig frá sameiginlegum stofnunum ríkisins – skattinum, æðsta dómstólnum og hernum – og stofna sínar eigin.
Í skýrslu Schmidts til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna undir lok októberbermánaðar segir að stofnanir Bosníu og Hersegóvínu hafi í reynd verið „lamaðar“ alveg frá því í júlí á þessu ári vegna fyrirætlana Serba um að hætta þátttöku í ákvarðanatöku innan þeirra.
Það segir Schmidt að virðist hafa verið svar við ákvörðun fyrirrennara hans í starfi, Valentin Inzko, um að gera afneitun á þjóðarmorðum og stríðglæpum og upphafningu stríðsglæpamanna saknæma í landinu.
Þá ákvörðun kallaði Dodik „síðasta naglann í líkkistu Bosníu og Hersegóvínu“ og hefur síðan þá viðhaft ýmsa tilburði sem benda til þess að af hálfu Serba sé stefnan sett á upplausn Bosníu og Hersegóvínu.
Schmidt segir í skýrslunni að möguleiki á átökum sé fyrir hendi ef fram haldi sem horfir og eindregin varnaðarorð hans og þróun mála í Bosníu að undanförnu hafa vakið ugg víða.
Dodik segir þó í nýju viðtali við Reuters að hann sé „ekki tilbúinn að fórna friði í landinu undir nokkrum kringumstæðum“ og að aðskilnaður serbneska lýðveldisins frá sameiginlegum lykilstofnunum ríkisins geti orðið friðsamlegur.
„Óábyrgt og óásættanlegt“
Ekki eru allir jafn sannfærðir um það. Þýski utanríkisráðherrann Heiko Maas sagði í gær við bosnískan vefmiðil að Þýskaland myndi hætta fjárhagslegum stuðningi við Bosníu og Hersegóvínu, ef ekki yrði fallið frá „óábyrgum og óásættanlegum“ áformum sem stuðluðu að eyðileggingu bosníska ríkisins, samkvæmt endursögn Reuters.
Ráðherrann sagði sömuleiðis að þýsk stjórnvöld fylgdust náið með gangi mála í Bosníu og Hersegóvínu, ásamt öðrum ríkjum Evrópusambandsins, Bandaríkjamönnum og Bretum.