Ákveðið hefur verið að prentútgáfa DV fari í tímabundið útgáfuhlé. Þetta kemur fram á vef miðilsins. Útgefandi DV er Torg ehf., sem einnig er útgefandi Fréttablaðsins og Hringbrautar.
Heimsfaraldurinn er sagður helsta ástæðan fyrir þessari ákvörðun, en hann er sagður hafa „gert auglýsingasölu erfiða og hamlað útgáfu með ýmsum hætti.“
Á vef miðilsins segir að á meðan DV komi ekki út á pappír verði aukinn kraftur settur í vefmiðilinn DV.is og boðað er að nýjungar muni líta dagsins ljós þar á næstu vikum.
DV hefur undanfarin misseri verið vikublað í áskrift og komið út um helgar. Fram kemur í frétt á vef DV að helgarviðtal blaðsins muni áfram birtast alla föstudaga á vefnum, auk þess sem það verði sent þeim sem skrá sig á póstlista DV í umbrotinni rafrænni útgáfu, án endurgjalds. Greiðsluseðlar áskrifenda fyrir apríl verða felldir niður.
Lestur blaðs lítill en vefs mikill
Tobba Marinósdóttir ritstjóri DV, sem sagði starfi sínu lausu í lok febrúar en starfar áfram hjá Torgi, mun fylgja þessum breytingum úr hlaði, samkvæmt frétt DV.
Heildarlestur prentútgáfu DV, hjá öllum mældum aldurshópum, mældist 2,9 prósent í könnun Gallup um lestur prentmiðla í febrúarmánuði. Af landsmönnum undir fimmtugu sögðust 2 prósent lesa DV í þeirri könnun, sem Kjarninn fjallaði um nýlega.
Vefur DV er hins vegar einn mest lesni vefur landsins og var með um 121 þúsund notendur á dag að meðaltali í síðustu viku, samkvæmt mælingum Gallup. Einungis mbl.is og Vísir eru meira lesnir en vefur DV.