Þeir sem byggðu píramídana stórkostlegu í Egyptalandi nýttu sér að öllum líkindum nú uppþornaða þverá Nílarfljóts til að flytja byggingarefnið á svæðið. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem landfræðingurinn Hader Sheisha sem starfar við Aix-Marseille háskóla í Frakklandi gerðu og birt var í lok ágúst í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Sheisha og félagar komust að þessari niðurstöðu með því að gera fræðilegt líkan að rennsli og farvegum Nílarfljóts síðustu átta þúsund árin.
Niðurstaðan er sú að fyrrum vatnasvið fljótsins og hærra vatnsborð þess fyrir 4.500 árum hafi gagnast til að byggja píramídana í Giza sem voru eitt af svonefndu sjö undrum veraldar til forna.
Píramídar voru reistir sem grafhýsi fyrir faraóa, konunga Egypta, allt frá árinu 2650 fyrir Krist. Frægastir þeirra eru píramídarnir í Giza og er sá stærsti búinn til úr 2,3 milljónum steina og er meðalþyngd hvers þeirra 2,5 tonn.
Vísindamenn hafa lengi viðrað þá kenningu að Forn-Egyptar hljóti að hafa notað Níl til að flytja allt grjótið, ýmist úr kalksteni eða granít, til að byggja hinar gríðarmiklu byggingar. Níl rennur hins vegar í talsverðri fjarlægð frá Giza. Kenningin um að grafinn hafi verið skurður að næstu þverá og árstíðarbundin flóð í ánni svo notuð til að flytja byggingarefnið um skurðinn.
Hingað til hefur hins vegar vantað rannsóknir og þar með þekkingu á því hvernig þetta var framkvæmanlegt.
Greindu berg og steingervinga
Sheisha og félagar söfnuðu margvíslegum gögnum til að endurbyggja flæðiengjar Nílarfljóts til forna. Þannig telja þau sig hafa komist að því að verkfræðingar Egypta hefðu getað notað þverána Khufu, sem er löngu uppþornuð, til verksins.
Fyrsta verk vísindahópsins var að greina berglög í borkjörnum af flæðiengjum Nílar til að meta hvar vatn stóð í þveránni Khufu fyrir þúsundum ára. Þeir rannsökuðu einnig steingerðar frjókornaleyfar af svæðinu í sama tilgangi.
Göngin sýna að þeirra mati að Khufu-svæðið stóð í blóma á árunum 2700-2200 fyrir Krist – einmitt á þeim tíma sem þrír stærstu píramídarnir voru líklega reistir í Giza. Þveráin getur því vel hafa gegnt því hlutverki að vera flutningsleið fyrir byggingarefnið í mannvirkin miklu.
Hins vegar lækkaði vatnsyfirborð í Khufu um árið 525 fyrir Krist og árið 332 f.Kr. var áin líklega orðin líkari lækjarsprænu.
Niðurstaðan þykir styðja vel við þá kenningu að verkfræðingar píramídanna hafi nýtt sér Nílarfljótið og þverár þess til flutninga. Að minnsta kosti er sannað að nóg vatn hafi verið í Khufu til slíks.
„Byltingarkennd uppgötvun,“ hefur CNN eftir Joseph Manning, sagnfræðingi við Yale-háskóla, sem segir rannsóknina sýna hversu mikilvæg loftslagsvísindi séu til að auka þekkingu okkar á mannkynssögunni. Hann segir fornleifafræðinga og sagnfræðinga hingað til hafa verið þá sem helst hafi fundið púsl hvað varðar menningu fyrri alda og árþúsunda en að umhverfisvísindi séu sífellt farin að spila stærra hlutverk og geti jafnvel „kollvarpað“ fyrri kenningum með nýjum og framúrstefnulegum rannsóknum.
Þurfa að vinna saman
Manning segir að margir vísindamenn hafi til þessa haldið því fram að Egyptarnir hefðu þurft að grafa skurð frá þverá Nílar til að koma byggingarefninu til Giza. Hins vegar sýni rannsókn landfræðinganna að hægt var að nota náttúrulegan árfarveg til flutninganna. Hann segir að mesta tækifærið felist í samstarfi sagnfræðinga og umhverfisvísindamanna, fólks sem beiti ólíkum aðferðum við rannsóknir, og að meira þurfi að gera að slíku í framtíðinni.