Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að stofna starfshóp með fulltrúum allra flokka, sem á að vinna að stefnu bæjarins varðandi hjólreiðar, svokallaða hjólreiðaáætlun. Tillagan kom upprunalega frá Jóni Inga Hákonarsyni bæjarfulltrúa Viðreisnar á fundi bæjarráðs á fyrsta degi júlímánaðar.
Samkvæmt framlagðri tillögu á heildstæð hjólreiðaáætlun að innihalda stefnumótun og sýn fyrir Hafnarfjörð sem hjólreiðabæ, áætlun um uppbyggingu stofnstíga hjólreiða og uppbyggingu hjólaleiða almennt, áætlun um hjólastæði og hjólaþjónustu í bænum, auk aðgerðaáætlunar, fjárfestingaáætlunar og kynningaráætlunar, til að auka hlutdeild hjólreiða.
Á fundi skipulags- og byggingarráðs síðasta fimmtudag, þar sem ákveðið var að setja vinnuna af stað núna strax, kom Sigurjón Ingvason áheyrnarfulltrúi Viðreisnar í nefndinni því á framfæri að „brýn þörf“ væri á að hefja vinnu við hjólreiðaáætlun nú þegar, en ekki setja hana í bið þar til nýtt aðalskipulag bæjarins taki gildi, sem yrði hugsanlega eftir 4-5 ár.
„Aðalskipulag Hafnarfjarðar hefur hingað til eingöngu nefnt hjólreiðar í nokkrum setningum. Ætli bæjarfélagið að láta taka sig alvarlega þegar kemur að samgöngumálum þá er mikilvægt að í vinnu við nýtt aðalskipulag sé annars vegar sett fram heildarsýn í samgöngumálum bæjarins og hins vegar áætlanir um hvernig á að fylgja þeirri sýn eftir og þá fyrir alla ferðamáta,“ sagði í bókun sem Sigurjón lagði fram á fundinum.
Hann sagði að upplegg að nýju aðalskipulagi bæjarins þyrfti að taka á þessu máli „með afgerandi hætti til að tryggja framgang raunverulegrar hjólreiðaáætlunar“, en hægt væri að hefjast handa við fyrstu áfanga hjólreiðaáætlunar áður en heildarendurskoðun aðalskipulags liggi fyrir.
Á þetta var fallist og lagt hefur verið fyrir sviðsstjóra hjá bænum að leggja fram erindisbréf um skipan starfshóps með fulltrúum allra flokka á næsta fundi ráðsins.
Hjólreiðaáætlanir víðar
Örfá sveitarfélög á Íslandi hafa þegar sett fram hjólreiðaáætlanir. Í höfuðborginni Reykjavík var á síðasta kjörtímabili samþykkt áætlun um fimm milljarða fjárfestingu fram til ársins 2025 í betri innviði fyrir hjólandi, með það að markmiði að fleiri sjái sér fært að fara ferða sinna á hjóli innan borgarinnar.
Skoðanakönnun frá Maskínu árið 2020 sýndi fram á að um 27 prósent Reykvíkinga sögðust helst vilja fara hjólandi á milli staða dags daglega og í hjólreiðaáætluninni sagði að búa ætti svo í haginn að þessi 27 prósent gætu valið að ferðast með þeim hætti sem þau helst vildu, á hjóli.
Í Ísafjarðarbæ hefur sömuleiðis verið sett fram stefna um hjólreiðar og innviðauppbyggingu, sem hefur tölusett markmið um auknar hjólreiðar innan bæjarins hjá mismunandi aldurshópum. Stefnan er meðal annars sú að 40 prósent fullorðinna hjóli eða gangi til vinnu að minnsta kosti þrisvar í viku árið 2024, en þetta hlutfall var 34 prósent árið 2020.
Vinna við nýjar hjólreiðaáætlanir hefur svo einnig verið í gangi í fleiri sveitarfélögum á undanförnum, til dæmis í Kópavogi, þar sem verið er að uppfæra fyrstu hjólreiðaáætlun bæjarins frá 2012. Einnig er vinna við gerð hjólreiðaáætlunar nýlega hafin í Reykjanesbæ.