„Bókaskilgreiningin er sú að hagfræði er félagsvísindi sem fjalla um hvernig einstaklingar, fyrirtæki og þjóðir skipta með sér gæðum sem eru af skornum skammti. En meira skýrandi væri að segja að hagfræði er grein sem notar vísindalegar aðferðir til þess að sjá hvernig ákvarðanir eru teknar,“ sagði Sigríður Benediktsdóttir í síðasta þætti af Ferð til fjár, þegar hún var beðin um að útskýra hagfræði. Sigríður er doktor í hagfræði frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum og var þar kennari áður en hún tók við starfi framkvæmdastjóra stöðugleikasviðs hjá Seðlabanka Íslands.
Þeir Breki Karlsson og Helgi Seljan, umsjónarmenn þáttarins, leituðu til Ingólfs Arnarsonar og konu hans Hallveigar Fróðadóttur til þess að skýra hagfræðinga enn frekar.
Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir standa frammi fyrir mikilvægri spurningu: Hversu miklum tíma eiga þau að eyða í berjatínslu?
Ingólfur og Hallveig eru ósammála um hversu miklum tíma þau eiga að eyða daglega í að tína ber, uppáhalds fæðu sína og lífsviðurværi. Til þess að eiga nóg af berjum þurfa þau að tína ber í fjórar klukkustundir á dag, en Ingólfur vill bæta klukkustund við vinnudaginn. Fram til þessa hafa þau tínt 1.000 ber á fjórum klukkustundum hvern dag. Það er nokkuð skynsamlegt af Ingólfi að fjölga vinnustundum, hjónin gætu þá átt birgðir af berjum ef eitthvað kemur upp á eða tekið sér frí á sunnudögum.
En hjónin elska að prjóna og að lengja vinnudaginn myndi að sjálfsögðu koma niður á prjónaiðjunni. Hallveig er hreint ekki viss hvort það sé þessi virði.
Ingólfur skýrir fyrir eiginkonu sinni hvers vegna þau ættu að tína ber klukkustund lengur á hverjum degi.
Ingólfur teiknar upp einfalt graf fyrir konu sína. Lárétti ásinn sýnir tíma og lóðrétti ásinn sýnir þann fjölda berja sem hjónin geta tínt. Því fleiri klukkustundum sem þau eyða í berjatínslu, því meira tína þau. En Ingólfur skýrir að eftir fimm klukkustunda tínslu þá hægi verulega á hversu miklu þau afkasta. Því sé best að hætta þá og prjóna í staðinn.
Ingólfur hefur þarna komist að því að afköst og vinnustundir haldast ekki endilega í hendur. Sá sem vinnur lengst, hann afkastar ekki endilega mest. Að fimm klukkustundum liðnum er tími til kominn að enda vinnudaginn, þegar dregur verulega úr afköstum.
Með einföldum hætti má segja að „prjónatíminn“ eftir fjögurra klukkustunda tínslu kosti hjónin 250 ber. Það er að segja, ef þau væru ekki að prjóna, þá gætu þau tínt 250 ber til viðbótar við þau 1000 sem þau tíndu á fyrstu fjórum klukkustundunum. En ef þau prjóna að lokinni fimm klukkustunda tínslu þá kostar sá prjónatími minna í berjum talið, þar sem þau hefðu hvort sem er tínt mun færri ber vegna þreytu.
Þau Sigríður og Ingólfur skýrðu með þessum hætti grunnhugmynd hagfræðinnar. Fyrir áhugasama er þetta svar Gylfa Magnússonar, dósent við Háskóla Íslands á Vísindavefnum hnitmiðað og fróðlegt, auk þess sem bókin Hagfræði í hnotskurn skýrir fræðigreinina með greinargóðum hætti.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fyrsti þátturinn var á dagskrá fimmtudaginn 15. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.