Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar var meðal þeirra þingmanna sem ræddu hækkun stýrivaxta Seðlabankans undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Hóf hann ræðu sína á því að „spóla aðeins aftur í tímann, um fimm mánuði eða svo“.
„Það er seinni partur ágústmánaðar í fyrra í landi tækifæranna. Stjórnmálaflokkur birtir auglýsingu úti um allt til að ná til kjósenda, meðal annars á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum og flettiskiltum. Auglýsingin er með stríðsletri: „Lægstu vextir í sögunni“. Hvorki meira né minna, lægstu vextir í sögunni. Þeir hafa verið ánægðir með sig á auglýsingastofunni þegar þessi texti fæddist því að hann er vissulega grípandi.“
Telur Sigmar að um sögufölsun sé að ræða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eignað sér vaxtalækkunarferlið. Hann sagði að hagfræðisnilldin hefði ekki fæðst í heilabúum snjallra manna í fundarherbergi í Valhöll heldur hefði hún átt sér að mestu náttúrulegri orsakir í veiru sem varð að heimsfaraldri.
„Engu að síður var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stundum kennir sig við ábyrgð og efnahagsmál, trommaði áfram möntruna um að Ísland væri skyndilega orðið að einhverri vaxtaparadís, lægstu vextir í sögunni. Stýrivextir voru þá 1 prósent og höfum í huga að þetta var fyrir fimm mánuðum. Það tók okkur fimm mánuði að fara úr stýrivöxtum upp á 1 prósent og í 2,7 prósent og ekki er óvarlegt að ætla að vextirnir hækki enn meira. Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og bregst við ástandinu með þeim tækjum og tólum sem bankinn á. Orð mín beinast ekki að bankanum heldur að ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem selja almenningi þá hugsun í aðdraganda kosninga að vaxtalögmáli íslensku krónunnar hafi endanlega verið kippt úr sambandi.
Afleiðingin er að sjálfsögðu sú að fólk tekur óþarfa áhættu í skuldsetningu og situr uppi með húsnæðislán sem hafa hækkað um tugi þúsunda um hver einustu mánaðamót og ekki enn búið að flauta til leiksloka. Viðreisn benti aftur og aftur á þetta í kosningabaráttunni: Við borgum hærri vexti á Íslandi en í nágrannalöndunum. Það þurfti heimsfaraldur þar sem heilu samfélögunum var lokað og allt sett í lás um allan heim til að Sjálfstæðisflokkurinn gæti barið sér á brjóst og auglýst af miklum móð: Lægstu vextir í sögunni. Það ástand varði í fjóra mánuði. Ísland var land vaxtatækifæranna í fjóra mánuði,“ sagði hann.
Hinn nýi veruleiki
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tók undir orð Sigmars og sagði að lýsing hans væri kjarni málsins. „Ríkisstjórnin gaf óraunhæfar væntingar um það að almenningur í landinu væri staddur allt í einu í einhverjum nýjum veruleika. Veruleika sem væri svipaður og við þekkjum í nágrannalöndunum. Við værum með öðrum orðum komin inn í lágvaxtaumhverfi. Láir einhver ungu fólki það sem vildi kaupa sér íbúð þó að það hafi miðað sínar ráðagerðir við þennan veruleika. Núna talar hins vegar Seðlabankinn um það að það þurfi að hækka vexti og þau hafa hækkað vexti um 2 prósentustig á mjög skömmum tíma.“
Hann benti á að spár Seðlabankans sem yfirleitt hefðu verið of varfærnar gerðu ráð fyrir 5,8 prósent verðbólgu.
„Þetta er hinn nýi veruleiki. Seðlabankastjóri sagði vissulega í morgun líka að Seðlabankinn bæri ekki ábyrgð á misskiptingu og hefði hana ekki í huga. Það er alveg hárrétt. En það gera stjórnvöld sannarlega. Stjórnvöld hafa nefnilega ríku hlutverki að gegna þegar kemur að baráttunni gegn ójöfnuði með réttlátu skattkerfi, félagslegu húsnæði, stuðningi við barnafjölskyldur og öflugar almannatryggingar. Þetta skilja ríkisstjórnir þeirra landa sem við berum okkur saman við, hvort sem við horfum til Þýskalands, Bretlands, Spánar eða víðar. Þar er núna verið að hefja aðgerðir sem tímabundið munu létta undir með þeim sem verst munu verða fyrir þessari kórónuveirukrísu á komandi mánuðum.
Við í Samfylkingunni höfum ásamt fleiri flokkum lagt fram þingsályktunartillögu um mótvægisaðgerðir gegn þessu og við hljótum að láta í okkur heyra og krefjast þess að ríkisstjórnin bregðist hratt við,“ sagði hann.
„Ef þetta er land tækifæranna er kannski eins gott að fara að pakka niður“
Inga Sæland formaður Flokks fólksins fjallaði einnig um vaxtahækkunina í ræðu sinni. „Í landi tækifæranna hækkuðu stýrivextir um 0,75 prósent. Hvað þýðir það fyrir fólkið í landinu? Jú, áfall fyrir þá sem nú þegar eru í vanda, sem nú þegar eru að ströggla, sem nú þegar hafa þurft að taka þátt í þessum heimsfaraldri með okkur, með öllu því sem tilheyrir, hækkandi vöruverði – allt fer hækkandi – og brjálæðislegum húsnæðismarkaði sem enginn botnar í.“
Henni finnst hækkunin allt of mikil. „Það mætti stíga aðeins varfærnara skref. Mér þætti vænt um að vita hvort hinn ágæti seðlabankastjóri gæti svarað þessu: Hvað vakir fyrir Seðlabanka sem heldur krónunni niðri eins og mögulegt er og kemur með öllum ráðum í veg fyrir að hún fái að styrkjast þannig að almenningur og Íslendingar geti notið sterkari krónu og tekist á við síhækkandi vöruverð innflutnings?“
Inga sagði að 0,75 prósent hækkun stýrivaxta Seðlabankans lýsti ekki því sem hefði verið nefnt í fyrri kosningabaráttu „land tækifæranna“.
„Ef þetta er land tækifæranna er kannski eins gott að fara að pakka niður eins og svo margir hafa gert. Þeir sem hafa kosið með fótunum og reynt að koma sér eitthvað annað.“
Spurði hún hvort það væri virkilega þannig að það ætti að fara að leggja það á skuldsett heimili landsins að taka enn eina holskefluna á sig. „Í landi tækifæranna hlýtur það að vera algjört grundvallarskilyrði að ríkisstjórnin bregðist við með mótvægisaðgerðum þannig að þeir sem eru með breytilega vexti og þeir sem eru að fara að taka skellinn, þeir sem þurfa að horfa upp á tugþúsunda hækkun á mánuði af húsnæðislánum sínum – að þeim verði ekki fleygt út á guð og gaddinn, eins og var hér eftir efnahagshrunið 2008 þegar hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín.
Ég vona bara, virðulegi forseti, að það sé að minnsta kosti ekki það land tækifæranna sem hér var verið að boða fyrir síðustu kosningar,“ sagði hún að lokum.