Ísfélag Vestmannaeyja hagnaðist um 5,3 milljarða króna á síðasta ári, ef miðað er við gengi Bandaríkjadals í lok árs 2021, en fyrirtækið gerir upp í þeirri mynt. Hagnaðurinn næstum þrefaldaðist milli ára en hann var 1,8 milljarðar króna árið 2020 miðað við gengi Bandaríkjadals í lok þess árs. Veiking krónunnar í fyrra jók hagnaðinn, þegar hann er umreiknaður í íslenskar krónur, lítillega.
Rekstrartekjur Ísfélagsins í uppgjörsmyntinni jukust um 59 prósent milli ára og voru um 16,4 milljarðar króna. Eigið fé Ísfélagsins um síðustu áramót var 40,8 milljarðar króna og jókst það um 3,5 milljarða króna milli ára þrátt fyrir að útgerðin hafi fjárfest í tveimur nýjum uppsjávarskipum. Vaxtaberandi skuldir Ísfélagsins lækkuðu um næstum 2,6 milljarða króna á árinu 2021 og eiginfjárhlutfall útgerðarinnar var 58,3 prósent í lok síðasta árs.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársreikningi Ísfélagsins sem var nýlega birtur í ársreikningaskrá Skattsins. Þar segir að góður rekstur á árinu, þar sem tekjur og afkoma jukust mikið frá fyrra ári, skýrðist „einna helst af loðnuvertíð á árinu 2021 en ekki voru stundaðar loðnuveiðar síðustu tvö ár þar á undan.“
Að mestu í eigu einnar fjölskyldu
Ísfélagið gerir út sjö fiskiskip frá Vestmannaeyjum, fjögur uppsjávarskip, tvö bolfiskskip og einn krókabát. Helstu starfsþættir félagsins eru frysting sjávarafurða, fiskimjöls- og lýsisframleiðsla og útgerð fiskiskipa. 230 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu til sjós og lands, en það rekur frystihús og fiskimjölsverksmiðjur í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn.
Alls eru hluthafar 131 talsins en ÍV fjárfestingafélag á 89 prósent hlut í Ísfélagi Vestmannaeyja og tíu stærstu eigendurnir eiga yfir 98 prósent. Stærsti beini eigandi þess er Guðbjörg Matthíasdóttir, sem á 91,7 prósent hlut í ÍV fjárfestingafélagi, en auk þess eiga börn hennar hlut.
Stjórn Ísfélagsins lagði til á síðasta aðalfundi að greiddur yrði út arður upp á 15 milljónir Bandaríkjadala vegna frammistöðu útgerðarinnar á árinu 2021. Miðað við gengi í lok síðasta árs eru það um 1,9 milljarðar króna. Það er ívið lægri upphæð en Ísfélagið greiddi í heild í tekjuskatt á síðasta ári, en sú upphæð nam tæplega 1,3 milljörðum króna. Hagnaður Ísfélagsins fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsgjöld (EBITDA-hagnaður) var um 7,1 milljarður króna. Af þeim hagnaði fór því um 18 prósent í tekjuskatt. Ekki er tilgreint í ársreikningi hvað var greitt í veiðigjald á árinu 2021.
Stærstu eigendur Ísfélagsins eru afar umsvifamiklir á öðrum sviðum atvinnulífsins en sjávarútvegi. Á meðal eigna Guðbjargar og fjölskyldu hennar er stór hluti í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, sem hún hefur stutt við með hlutafjáraukningu á undanförnum árum samhliða miklum taprekstri útgáfufélagsins. Auk þess á fjölskyldan meðal annars hluti í ýmsum skráðum félögum, allt hlutafé í ÍSAM, einu stærstu innflutnings- og framleiðslufyrirtækis landsins og fjölmargar fasteignir.
Þriðjungur frosinna uppsjávaafurða fóru til Úkraínu
Í ársreikningnum er vikið að atburðum sem áttu sér stað eftir lok reikningsársins sem geta haft áhrif á reksturinn, nánar tiltekið innrás Rússlands í Úkraínu í lok febrúar. Þar segir að Ísfélagið hafi í gegnum árin átt í töluverðum viðskiptum við fyrirtæki í Úkraínu en um þriðjungur frosinna uppsjávarafurða félagsins hafa verið seld þangað síðastliðin ár. „Mikil óvissa er um þróun markaða í Úkraínu en eins og sakir standa er erfitt að meta möguleg áhrif á viðskipti og fjárhagslega stöðu Ísfélagsins vegna ástandsins í Úkraínu. Fjárhagsleg staða félagsins er sterk og engin hætta á að stríðsátökin hafi áhrif á rekstrarhæfi þess.“
Á öftustu síðum ársreiknings Ísfélags Vestmannaeyja eru birt yfirlit yfir ófjárhagslegar upplýsingar um fyrirtækið, meðal annars samfélagslega ábyrgð þess. Þær upplýsingar eru nú mun ítarlegri en þær hafa áður verið. Í kafla sem ber undirheitið „Mannauður“ segir meðal annars: „Hjá Ísfélaginu er lögð áhersla á að starfsmenn sýni heilindi í starfi. Hvorki spilling né mútuþægni er liðin og vinnur félagið að því að setja starfsmönnum félagsins formlegar siðareglur.“