Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri og helsti eigandi Norvik-samstæðunnar, seldi Kaupás, Elko, Intersport, auglýsingastofuna Expo og Bakkann vöruhótel fyrir samtals 11,58 milljarða króna. Bókfærður hagnaður Norvikur á sölunni nam tæplega átta milljörðum króna. Frá þessu greinir DV í dag.
Jón Helgi seldi fyrirtækin í febrúar á síðasta ári. Kaupandinn var hópur sem samanstóð af framtakssjóði í rekstri sjóðstýringarfyrirtækisins Stefnis, lífeyrissjóðum og fag- og einkafjárfestum.
Í umfjöllun DV segir að hagnaður Norvikur af sölunni skýri góða afkomu félagsins á síðasta ári, en ársreikningi félagsins fyrir árið 2014 var nýlega skilað til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra. Eignir Norvikur í árslok námu 15,3 milljörðum króna og höfðu þá minnkað vegna sölunnar um ríflega átta milljarða króna milli ára. Eigið fé félagsins var tæplega 14,2 milljarðar og eiginfjárstaðan afar sterk, eða 93 prósent samanborið við 26 prósent árið áður. Í kjölfar sölunnar greiddi Norvik upp nærri allar vaxtaberandi og skuldir og eru því nánast engar í dag.
Stærsti einstaki eigandi Festi, kaupanda félaganna sem áður tilheyrðu áður Norvik-samstæðunni, er Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Veritas Capital. Hlutur hans er um 12 prósent. Í umfjöllun DV kemur fram að heildarfjárfesting Hreggviðs hafi numið um 1.090 milljónum króna og að fjárfestingin hafi verið fjármögnuð með nýjum lánum að fjárhæð 890 milljónir króna og innborguðu hlutafé að fjárhæð 200 milljónir króna. Aðrir stórir einkafjárfestar í Festu eru Þórður Már Jóhannesson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Straums-Burðaráss, með 6,5 prósent hlut, og Guðmundur Ásgeirsson, fyrrverandi eigandi Nesskipa, með 3,8 prósent hlut.