Samkeppnisforskotið sem Ísland hefur í að framleiða ódýra og vistvæna raforku ætti frekar að vera nýtt til verðmætasköpunar innanlands frekar en raforkuútflutnings með sæstreng. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, nýskipaður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ítarlegu viðtali í jólablaði Vísbendingar, sem kom út í gær.
Samkvæmt Guðlaugi hafa helstu útflutningsgreinar landsins náð samkeppnisforskoti vegna aðgangs að grænni og hagkvæmri orku, en hann segir vörur með minna kolefnisfótspor víða vera verðmætari og hafa auðveldara aðgengi að markaði. Í því tilefni nefnir hann sérstaklega sjávarútveginn, sem stefnir að grænum orkuskiptum í náinni framtíð. „Og ef við værum ekki að brenna jarðefnaeldsneyti við veiðarnar, þá skilar það sér vonandi í því að fiskurinn verði verðmætari vara,“ segir ráðherrann.
Landkynning fólgin í grænni orkuframleiðslu
Sömuleiðis telur hann að það væri mikil landkynning fólgin í því ef Ísland yrði í fremstu röð landa án jarðefnaeldsneytis, sem gæti gefið ferðaþjónustunni samkeppnisforskot á önnur lönd. „Ég vil trúa því að það verði sérstök verðmæti fólgin í því,“ bætir hann við.
„Mín framtíðarsýn er sú að þeir sem hingað komi ferðist um landið á rafbíl, njóti á ferðalagi sínu aðstoðar vistvænnar ferðaþjónustu og kynnist okkar ósnortnu víðernum. Þetta myndi fela í sér mikla og jákvæða landkynningu sem innistæða er fyrir.”
Blaðið birtist ef þú þrýstir á forsíðuna
Hægt er að lesa jólablaðið í heild sinni, sem inniheldur fjölda greina frá sérfræðingum um loftslagsmál, umhverfisvernd og grænum lausnum, með því að smella á myndina hér að ofan.