Hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum gerir það tvisvar sinnum líklegra að rigningar eins og þær sem urðu í Suður-Afríku í apríl orsaki gríðarleg flóð og aurskriður líkt og raunin varð.
Þetta er niðurstaða vísindahóps á vegum The World Weather Attribution. Reuters greinir frá. Skyndiflóð sem urðu við strandborgina Durban varð 435 að bana og olli því að tugþúsundir misstu heimili sín. Mikið tjón varð á vegum, rafmagnslínum og vatnslögnum í þessari mestu hafnarborg Suður-Afríku og einni stærstu í Afríku.
Vísindamennirnir greindu veðurgögn og settu þau í hermilíkan til að bera saman áhrif veðurfars dagsins í dag og veðurfar í lok nítjándu aldar – áður en iðnbyltingin og losun gróðurhúsalofttegunda sem henni fylgdi hófst. Á þeim tíma var meðalhiti á Jörðinni 1,2 gráðum lægri en hann er nú. Niðurstaða rannsóknarinnar er m.a. sú að sögn vísindamannanna að vænta má hamfara eins og þeirra sem urðu í Durban einu sinni á hverju tuttugu ára tímabili. Ef losun gróðurhúsalofttegunda væri á pari við það sem þekktist fyrir iðnbyltingu yrðu slíkar hamfarir líklega á um fjörutíu ára fresti.
Gríðarmiklar rigningar geta átt sér stað óháð loftslagsbreytingum en líkurnar á þeim hafa aukist mikið, um 4-8 prósent, með losun af manna völdum.
Líkur en ekki fullvissa
Það fylgir því alltaf óvissa að meta líkur á náttúruhamförum. Lykilorðið er einmitt alltaf „líkur“ – aldrei fullvissa.
Vísindamennirnir benda í rannsókn sinni á að suðausturströnd Afríku verði fyrir áhrifum af veðurkerfum yfir hafi sem sýnt hefur verið fram á að loftslagsbreytingar hafi þegar gert illvígari.
World Weather Attribution, WWA, eru samtök sérfræðinga sem sérhæfa sig í að fylgjast með breytingum á veðurfari og kortleggja frávik. Þau telja að gríðarleg rigningarveður séu orðin algengari í sunnanveðri Afríku en áður. Veðrið í nokkrum löndum sunnan miðbaugs hefur verið mjög óvenjulegt það sem af er ári. Þrír fellibyljir og tveir hitabeltisstormar gengu yfir á aðeins sex vikna tímabili. Þetta hafði mikil og neikvæð áhrif á líf yfir einnar milljónar manna, m.a. vegna mikillar úrkomu og flóða.
Vísindamenn samtakanna segja að vegna mjög takmarkaðra veðurgagna sé þó ekki hægt að fullyrða að loftslagsbreytingar séu almennt að auka tíðni slíkra ofsaveðra í heimshlutanum en gögnin frá Durban og nágrenni skera sig þó úr og því hægt að álykta um það svæði.