Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, gagnrýnir seinagang við rannsókn á lekamálinu svokallaða í bréfi til Tryggva Gunnarssonar, Umboðsmanns Alþingis. Bréfið hefur verið birt á vef innanríkisráðuneytisins en Tryggvi sendi fyrirspurn á ráðherra eftir að hafa rætt um málið við Stefán Eiríksson og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara.
Hanna Birna segist ekki hafa hafta óeðlileg afskipti af rannsókn málsins en embætti ríkissasóknara hefur það nú til meðferðar og hefur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu, sem varðar meintan leka á persónuupplýsingum um hælisleitandann Tony Omos, ekki verið tekin.
Í bréfi sínu segir Hanna Birna að langur rannsóknartími hafa verið bagalegur fyrir sig. „Þegar rannsókn málsins hófst gaf ég út þá yfirlýsingu að ég myndi ekki tjá mig um málið fyrr en henni væri lokið, enda ekki við hæfi að ráðherra lögreglumála tjáði sig opinberlega um rannsókn á meðan hún stæði yfir. Meðal annars af þessari ástæðu hefur sá langi tími sem rannsóknin hefur tekið verið bagalegur og t.a.m. takmarkað möguleika mína til að svara ítrekuðum árásum sem ég hef orðið fyrir á opinberum vettvangi.“
Hanna Birna segist hafa átt fjóra fundi með Stefáni Eiríkssyni og að lekamálið hafi meðal annars borið á góma á þeim fundum. „Um fyrra atriðið er það að segja að ég hef átt fjóra almenna fundi með lögreglustjóra á tímabilinu frá því framangreind rannsókn hófst í febrúar sl., en enginn þeirra var boðaður til að ræða rannsóknina sérstaklega. Á þeim mánuðum sem þessi lögreglurannsókn hefur staðið yfir hef ég jafnframt átt símtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna ýmissa mála. Ráðherra á eðli málsins samkvæmt reglulega samskipti við forstöðumenn undirstofnana ráðuneytisins, oft og tíðum á óformlegum nótum, og er því eins farið með lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er haldin skrá yfir þau samskipti og því er mér ekki unnt að leggja fram gögn til að upplýsa um tilvik þeirra [...] Í þeim tilvikum sem rannsóknina hefur borið á góma í samskiptum mínum við lögreglustjórann hefur það snúið að þeirri viðleitni ráðuneytisins að greiða fyrir rannsókn málsins. Er hér fyrst og fremst um að ræða atriði sem snerta upplýsingaöflun lögreglunnar frá ráðuneytinu til að hægt sé að ljúka rannsókninni eins fljótt og unnt er. Sérstaklega hef ég spurt um öryggi þeirra gagna sem lögreglan hefur fengið aðgang að hér innan ráðuneytisins og varða umrædda rannsókn ekki með nokkrum hætti. Þá hef ég spurt lögreglustjóra hvenær vænta mætti þess að rannsókninni lyki.“
Sjá má bréf Hönnu Birnu til Umboðsmanns Alþingis hér.