Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varaformaður flokksins og fyrrverandi innanríkisráðherra, hélt sína fyrstu ræðu á þinginu í dag eftir að hún snéri til baka úr leyfi í síðasta mánuði.
Hanna Birna hélt ræðu undir liðnum störf þingsins, eftir að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði um álit hennar á því sem er að gerast í þinginu, þar sem deilt hefur verið um rammaáætlun og margt fleira undanfarna daga. Birgitta sagðist vilja vita álit varaformanns Sjálfstæðisflokksins og þingmannsins Hönnu Birnu. Það væri mikilvægt, og hún vissi til þess að Hanna Birna hefði verið mikill talsmaður samvinnustjórnmála þegar hún var í borgarstjórn.
„Hvað varðar afstöðu mína til þess sem er að gerast á þinginu núna þá held ég að ég sé á sama stað og við öll sem sitjum í þessum sal. Ég verð að viðurkenna það, ég hef ekki setið áður sem óbreyttur þingmaður og ég er hálf miður mín yfir því að upplifa það sem ég upplifi hér á hverjum einasta degi,“ sagði Hanna Birna. Hún sagðist telja vandamálið miklu stærra en þetta eina mál, rammaáætlun, sem nú hefðu farið margir dagar í að ræða. Rammaáætlun endurspeglaði ákveðna átakamenningu, sem yrði að hverfa. „Stjórnmálin verða að breytast, og þau breytast ekki nema við breytumst hér.“
Hún sagðist hafa talað fyrir breyttum stjórnmálum í mörg ár, en gæti viðurkennt það að „vonir mínar og væntingar til þess að ná árangri í þeirri baráttu, þær hafa ekki aukist að undanförnu.“ Hún hefði rekið sig á að „raunveruleikinn er flóknari en draumurinn um það að gera hlutina öðruvísi.“ Til þess að breyta menningunni á þinginu verði eitthvað að breytast í hugsunarhætti þingmanna. Það væri ekki við meirihluta eða minnihluta að sakast, heldur alla. „Þess vegna stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, ágætu félagar, að þjóðin skilur ekki þingið.“