Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður formaður utanríkismálanefndar Alþingis á komandi vetri. Það var samþykkt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag samhljóða. RÚV greinir frá þessu.
Birgir Ármannsson, fráfarandi formaður utanríkismálanefndar, verður fyrsti varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þessi breyting tekur formlega gildi við þingsetningu á morgun.
Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra í nóvember í fyrra í kjölfar lekamálsins, eftir að hafa verið staðin að því að hafa afskipti af rannsókn lögreglu á lekamálinu svokallaða, en í því var aðstoðarmaður hennar fyrrverandi, Gísli Freyr Valdórsson, dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Hanna Birna sagði af sér eftir að Gísli Freyr játaði að hafa lekið gögnum en Umboðsmaður Alþingis hafði þá þegar birt upplýsingar sem sýndu glögglega að Hanna Birna hafði sem innanríkisráðherra afskipti af rannsókn á hennar eigin ráðuneyti með samtölum við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Hún tók sér líka leyfi frá þingstörfum en settist aftur á þing í vor sem óbreyttur þingmaður. Hún sagði frá því í Morgunvaktinni á RÚV í morgun að hún hefði farið í miklum rólegheitum aftur inn á þing og til dæmis ekki sóst eftir að verða formaður neinnar nefndar, sem þó væri eðlilegt að oddviti í Reykjavíkurkjördæmi gerði. Þetta myndi nú breytast.
Hanna Birna ætlar sér líka að sækjast eftir endurkjöri sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi í næsta mánuði.