„Ef kennarar veita mér traust og þá er ég fús, viljug og áhugasöm um að leiða kennarastéttina næstu fjögur árin,“ skrifar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í Borgarholtsskóla og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambandsins, á Facebook-síðu sína í dag þar sem hún tilkynnir um þá ákvörðun sína að bjóða sig fram til formanns sambandsins.
Ragnar Þór Pétursson, formaður til fjögurra ára, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku. Það tilkynnti hann á föstudag og sagðist ætla að snúa aftur til kennslu.
Hanna Björg hefur vakið athygli í samfélaginu síðustu vikur eftir pistil sem hún skrifaði á Vísi í ágúst undir fyrirsögninni: Um KSÍ og kvenfyrirlitningu. Í kjölfar hans hófst mikil umræða í samfélaginu um ásakanir um kynferðisofbeldi og áreitni liðsmanna karlalandsliðsins í fótbolta og viðbrögð KSÍ við þeim.
„Ég hef starfað með forystu framhaldsskólakennara lengur en ég man – farið í gegnum samninga, ósætti, sigra og ósigra,“ skrifar Hanna Björg í framboðstilkynningu sinni. „Sú reynsla og þekking á Kennarasambandinu er dýrmæt og ég tel að hún muni nýtast mér í frekara starf innan sambandsins og í þágu kennara. Allir kennarar á öllum skólastigum eru mikilvægir og ég mun sannarlega gera mér far um að vera málsvari allra.
Frá því ég hóf störf sem kennari hef ég haft áhuga og metnað fyrir bæði menntun í landinu og kjaramálum stéttarinnar. Það verður leiðarstef mitt ef kennarar treysta mér til forystu. Grundvöllur kraftmikillar kjarabaráttu er sterk sjálfsmynd stéttarinnar og rík fagvitund. Kennarastarfið er mikilvægasta starfið.“
Frestur til að bjóða sig fram til formanns Kennarasambandsins rennur út 4. október.