„Þá er þessum kafla lokið. Ég tapaði. Auðvitað er ég aum, súr og spæld en ég verð fljót að jafna mig. En ég er líka hugsi.“
Þetta skrifar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og frambjóðandi til embættis formanns Kennarasambands Íslands (KÍ) í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Niðurstöður lágu fyrir í gær og var Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Seljaskóla, kjörinn nýr formaður KÍ með tæp 42 prósent atkvæða. Hanna Björg hlaut rúm 16 prósent atkvæða í rafrænni atkvæðagreiðslu.
Hanna Björg segir í stöðuuppfærslunni að stærsta kvennastétt á Íslandi hafni konum – aftur og aftur og aftur. „Einkum og sér í lagi femíniskri konu. Þar sem ég er helst þekkt fyrir jafnréttisstarf mitt í skólakerfinu, þá hef ég áhyggjur. Hver er staða jafnréttismála í skólum landsins? Ég hef sagt og segi enn, skólakerfið er annað hvort hluti af vandanum eða lausninni. Það verður aldrei jafnrétti á Íslandi ef skólakerfið er ekki virkur aðili í þeirri vegferð. Hverjar eru horfurnar? Sú staðreynd að ég er umdeild vegna jafnréttisvinnu minnar – segir okkur að jafnréttishugsjónin er umdeild og hvernig komumst við þá áfram?“ spyr hún.
„Eigum enn langt í jafnréttislandið og paradísina“
Við kennara vill Hanna Björg segja: „Ég vona að niðurstaða kosninganna sé ekki vísbending um viðhorf ykkar til innleiðingar jafnréttishugsjónarinnar í skólakerfið. Við ykkur hin vil ég segja – við eigum enn langt í jafnréttislandið og paradísina. Ég er stolt af kosningabaráttunni minni sem var heiðarleg, einlæg og málefnaleg.“
Þá þakkar Hanna Björg þeim 1.083 kennurum sem kusu hana. „Auðmjúkar þakkir fyrir öll fallegu orðin, einlæga stuðninginn og allt peppið frá fjölskyldunni minni, vinum og þeim sem ég þekki ekki neitt – ég bý að þessu alla ævi.
Ég óska kennarastéttinni þess að vera sameinuð og sterk, og ég óska verðandi formanni farsældar í starfi,“ skrifar hún að lokum.
Þá er þessum kafla lokið. Ég tapaði. Auðvitað er ég aum, súr og spæld en ég verð fljót að jafna mig. En ég er líka...
Posted by Hanna Björg Vilhjálmsdóttir on Wednesday, November 10, 2021