Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) lýsa yfir vonbrigðum með það, í umsögn um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til fjáraukalaga, að þar sé ekki að finna tillögur um frekari framlög úr ríkissjóði til málaflokks fatlaðs fólks né aukin rekstrarframlög til Strætó.
Í umsögninni segir að nýframlögð fjáraukalög beri það ekki með sér að tekið hafi verið mark á sjónarmiðum sveitarfélaga landsins um fjárhagslega leiðréttingu vegna málaflokksins, eins og gerð var krafa um í ályktun Landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga í lok september.
„Mikilvægt er og enn hægt, að taka á þessu máli, þ.e. í fjáraukalögum ársins 2022 og síðan til framtíðar í fjárlögum ríkisins árið 2023. Lögð er þung áhersla á að sveitarfélögin fái fjárhaglega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum vegna þjónustu við fatlað fólk eins og farið hefur verið yfír m.a. á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í byrjun október þar sem fulltrúar ríkisins tóku þátt. Eins og komið hefur fram er þetta mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en áætlað er að um 87% hallans falli til hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í umsögn SSH.
Þar er vísað til þess að halli af málaflokknum árið 2020 hafi verið um 8,9 milljarðar króna, eins og fram kom í skýrslu starfshóps sem greindi kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk. Nú sé svo unnið að sambærilegri greiningu fyrir árið 2021 og ætla megi að niðurstaðan hafi versnað um allt að 3 milljarða króna, sem setur heildarhallann upp í 12-13 milljarða króna.
„Vanfjármögnun málaflokksins er ein meginorsök þess rekstrarhalla sem hefur birst í árshlutauppgjörum sveitarfélaganna 2022, en þau hafa með ábyrgum hætti brugðist við lögum sem sett hafa verið um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, án þess að verafjármögnuð með eðlilegum hætti,“ segir í umsögn SSH.
Ítreka beiðni um aukin framlög til rekstur Strætó
Í umsögn SSH er svo „ítrekuð beiðni um að ríkissjóður komi með framlag til reksturs Strætó bs. til að létta sveitarfélögunum það fjárhagslega tap sem orðið hefur vegna faraldursins“ og sett fram mynd sem sýnir hvernig innstig í strætisvagna þróuðust í faraldrinum.
Á það er bent að ef tekjustreymi Strætó hefði verið sambærileg og fyrir heimsfaraldurinn væru uppsafnaðar tekjur á árunum 2020-2022 um 1,7-2 milljörðum hærri en reyndin er.
„Sveitarfélögin hafa þegar brugðist við þessari stöðu með því að leggja Strætó bs. til fjármagn, hækka gjaldskrár og hagræða í rekstrinum. Samkvæmt skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um mat á árangri aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru kemur fram að um 17,5 milljarðar kr. voru greiddir úr ríkissjóði til rekstraraðila vegna neikvæðra áhrifa af Covid-19. Strætó bs. fékk á árinu 2021 framlag að upphæð 120 milljónir kr og Ijóst er að sú upphæð dugar hvergi upp í þann mikla halla sem varð á rekstrinum vegna Covid-19,“ segja sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins.
Þau segja að rökstyðja megi beiðnina „með því að sveitarfélögin gerðu það sem þau gátu til að halda upp sem mestri þjónustu á tímum Covid m.a. til að mikilvægir framlínustarfsmenn ættu þess kost að komast til vinnu og sinna þeim mikilvægu störfum sem þurfti á Covid tímanum“, auk þess sem UITP, alþjóðasamtök um almenningssamgöngur, hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að ríkisstjórnir haldi áfram að styðja við almenningssamgöngur á meðan þær séu að „ná sér uppúr þeim öldudal sem þær lentu í við Covid-19 faraldurinn.“
Fjárlagahalli minni en áætlað var þrátt fyrir 75 milljarða útgjaldaaukningu
Í frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra til fjáraukalaga, sem lagt var fram 9. nóvember, kom fram að útlit væri fyrir að afkoma ríkissjóðs á næsta ári yrði 60 milljörðum króna betri en útlit var fyrir þegar fjárlög voru lögð fram fyrr í haust.
Helsta ástæðan fyrir því er sú að einsýnt þykir að tekjur ríkisins af skattheimtu og tryggingagjöldum verði yfir 100 milljörðum meiri en áætlað var er fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Ríkisfjárlagahallinn stefnir því í að verða 126 milljarðar á næsta ári, í stað 186 milljarða króna.
Alls eru vænt útgjöld ríkisins árið 2023 að aukast um tæpa 75 milljarða króna frá því sem áður var áætlað samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu. Þar munar langmestu um 37 milljarða króna aukin útgjöld vegna endurmetinnar þarfar um vaxtagjöld ríkissjóðs, vegna áhrifa verðbólgu á verðtryggðar skuldir ríkisins. Einnig er gert ráð fyrir 16,6 milljarða króna útgjaldaheimildum vegna kórónuveirufaraldursins, að uppistöðu til heilbrigðisstofnana.
En ekkert bætist við framlög til Strætó, né til málaflokks fatlaðs fólks. Og það harma sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins.