Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, 8. mars, og nýttu margir þingmenn tækifærið og fjölluðu um jafnrétti í ræðum sínum undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Margt bar á góma, til að mynda hræðilegar aðstæður kvenna í Úkraínu, lífeyrisréttindi fátækra kvenna á Íslandi, öryggi þeirra í heilbrigðiskerfinu og samhengi jafnréttis og loftslagsmála.
Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna reið á vaðið og sagði í sinni ræðu að jafnréttisbaráttan næði til allra sviða samfélagsins.
„Hvort sem við horfum til kynbundins ofbeldis, launamunar, á vinnumarkaðinn eða fjölskyldulíf eigum við víða langt í land. Mig langar að fjalla hér aðeins um einn afmarkaðan þátt er varðar stöðu kvenna í samfélaginu. Konur eiga oft og tíðum erfitt uppdráttar í heilbrigðiskerfinu, á þær er síður hlustað og kvensjúkdómar fá minna vægi en aðrir sjúkdómar. Komist var að þeirri niðurstöðu í stórri kanadískri rannsókn að konur sem voru skornar upp af karlkyns skurðlæknum væru 15 prósent líklegri til að hljóta slæma útkomu miðað við konur sem voru skornar upp af kvenkyns skurðlækni,“ sagði hún.
Benti Jódís á að sami munur hefði ekki komið upp milli kyns læknis þegar útkomur karla voru skoðaðar. „Konur undir fimmtugu voru líklegri til að deyja áratuginn eftir hjartaáfall en karlar. Mögulegar ástæður eru mismunandi meðferðir í kjölfar áfallanna. Í Bretlandi eru 28,1 prósent botnlangaskurða kvenna óþarfir miðað við 12 prósent hjá körlum. Talið er að hægt væri að lækka þessa tölu verulega með því að skoða fyrst aðrar orsakir, til dæmis tíðaverki, blöðrur á eggjastokkum og fleira.“
Greindi hún frá því að á dögunum hefði ung kona fallið frá hér á landi sem ekki fékk áheyrn fyrr en of seint. „Hún er ekki sú fyrsta og verður ekki sú síðasta. Í dag er Alþjóðadagur kvenna en jafnframt er þetta afmælisdagur Rótarinnar, félags um velferð og lífsgæði kvenna, sem fagnar níu ára afmæli. Við eigum að styðja við rannsóknir, heyra í konum og tryggja jafna og örugga heilbrigðisþjónustu óháð kyni.“
Hætta á bakslagi
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata fjallaði næst um jafnréttismál og sagði að rétt væri að þakka fyrir þá baráttu sem hefði skilað samfélaginu á þann stað sem það væri í dag.
„Áratugabarátta fyrir jafnrétti og bættu samfélagi hefur skilað – ja, ég er ekki stærðfræðingur en ég myndi segja svona milljón sinnum betra samfélagi en ella. Vandinn er hins vegar að barátta fyrir mannréttindum er þannig að um leið og okkur finnst við vera komin í höfn þá hættir okkur við bakslagi. Okkur hættir til að halda að réttinum sé náð og þar með þurfi ekki að berjast lengur,“ sagði hann.
Þannig telur hann til að mynda að það sé tvíeggjað sverð að Ísland mælist alltaf efst á jafnréttisvísi World Economic Forum af því að það geti tamið þeim sem halda um stjórnartaumana ákveðna værukærð. Hér sé jafnréttisparadís. Það segi þeir yfirleitt á erlendri grundu og trúi því kannski þegar heim er komið.
„En hátíðarræðurnar skila sér ekki alltaf í aðgerðirnar sem við þurfum að grípa til. Ég fletti í gegnum hvað gert var á síðasta kjörtímabili og fann til dæmis þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
Allt fínar áætlanir en, eins og fram kom í samráðsferli áður en málin komu til þingsins, ekki nógu metnaðarfullar og ekki nægilega fjármagnaðar. Ríkisstjórnin brást ekki við þessum ábendingum á samráðsstigi heldur skilaði hún til þingsins einhverju moðvolgu áætlanadóti sem þingið lagaði stundum og stundum ekki,“ sagði Andrés Ingi.
Velti hann að endingu því fyrir sér hvort ekki væri kominn tími til þess að baráttan fyrir jafnrétti skilaði sér, ekki bara í hátíðarræðum ráðamanna heldur einnig í þeim aðgerðum sem þeir legðu til á þinginu.
„Leggjum okkar á vogarskálarnar til að styðja úkraínskar konur“
Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna væri tilefni til að fagna árangri í jafnréttismálum og benda á verk sem þarf að vinna.
„Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér, það er stöðug vinna að viðhalda árangri og berjast fyrir frekara jafnrétti. Það er fjölbreytt samfélagslegt verkefni á heimsvísu og því miður eru ekki einungis stigin framfaraskref, stundum förum við mörg skref til baka.
Stríðið í Úkraínu er slíkt bakslag. Það bitnar á venjulegu fólki og þar með á jafnrétti. Fjölskyldur sundrast, konur og börn verða illa úti. Það er því vel við hæfi að UN Women á Íslandi beini sjónum að stöðu kvenna og stúlkna í Úkraínu í tilefni dagsins. Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Það eru því miður farnar að berast fréttir af því að líkamar kvenna séu orðnir vettvangur stríðsátaka í Úkraínu eins og alla tíð hefur tíðkast í stríði. Konur neyðast til að flýja heimili sín með ung börn, skilja eftir syni og maka, syni sem þær höfðu vonast eftir að fylgjast með í íþróttum, námi og starfi en ekki í stríðsátökum, maka og bræður sem þær vita ekki hvort þær sjá aftur,“ sagði hún.
Telur Líneik Anna að stuðningur miðaður að þörfum kvenna sé brýnn, ekki síst til þeirra jaðarsettu. „Leggjum okkar á vogarskálarnar til að styðja úkraínskar konur og stuðlum að því að þær fái tækifæri til að vinna að friði, fái að koma að borðinu. Friður er grundvöllur jafnréttis.“
Hópur kvenna unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum
Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði að þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar væri nauðsynlegt að við borðið sætu bæði karlar og konur og raddir allra heyrðust vel.
„Borðin geta verið margvísleg: ríkisstjórnarborðið, fundarborð sveitarstjórna, borðið þar sem samið er um kaup og kjör og eldhúsborðið þar sem verkum er skipt á fjölskyldumeðlimi. Þetta á líka við um borðið þar sem reynt er að semja um frið á milli stríðandi fylkinga. Á myndum af þeim sem sitja við samningaborðið og reyna að semja um frið í stríði rússneska hersins í Úkraínu sjást engar konur, sem sýnir okkur mjög skýrt að við eigum langt í land að ná jafnvægi í þessum efnum. Og á fleiri sviðum eigum við langt í land.
Launamunur hér á landi er enn mikill á milli karla og kvenna sem er mismunun sem fylgir konum ævina út. Lægri laun og hlutastörf gefa lægri lífeyri við starfslok. Það er augljóst mál.“
Hún vildi við tilefnið sérstaklega ræða um fátækar konur á Íslandi. „Á lágmarkslaunum búa þær við mjög kröpp kjör og þær sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar eru í enn verri málum. Um 70 prósent lífeyrisþega sem búa við lökustu kjörin eru konur sem voru í hlutastörfum eða heimavinnandi á árum áður. Meðal þeirra sem eru allra verst settar eru konur af erlendum uppruna. Þessi hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og þær hafa mjög takmörkuð efni og úrræði til framfærslu. En stjórnvöld virðast ekki hafa frétt af þeirra vanda. Baráttan gegn tekjuójöfnuði og kynjamismunun stendur yfir og Samfylkingin mun ótrauð halda jafnréttisbaráttunni áfram,“ sagði Oddný.
Getum ekki unnið með loftslagsmál án þess að vinna líka með jafnrétti kynjanna
Eva Dögg Davíðsdóttir þingmaður Vinstri grænna fannst vert að staldra við skörun loftslagsbreytinga og kynjajafnréttis á baráttudegi kvenna.
„Loftslagsbreytingar eru, eins og við þekkjum, ekki réttlátar. Þótt þurrkar, flóð og aftakaveður hafi áhrif á alla jörðina er staðreyndin sú að fátækustu og jaðarsettustu svæði heims, sem bera í raun minnsta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, verða verst fyrir barðinu á áhrifum loftslagsvárinnar. Konur eru sérstaklega jaðarsettar í þessu samhengi. Rannsóknir hafa sýnt að á heimsvísu eru konur líklegri til að verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna loftslagsbreytinga og á sama tíma ná loftslagsaðgerðir oft ekki til þeirra.
Það er orðið deginum ljósara að við getum ekki unnið með loftslagsmál án þess að vinna líka með jafnrétti kynjanna og öfugt, því að þó að konur séu að mörgu leyti fórnarlömb loftslagsbreytinga eru þær líka hluti af lausninni. Rannsóknir sýna að loftslagsaðgerðir á viðkvæmum svæðum styrkjast undir forystu kvenna og eru líklegri til langtímaárangurs. Að sama skapi getur virk þátttaka kvenna verið valdeflandi fyrir þær í samfélaginu og þannig aukið jafnrétti,“ sagði hún.
Nefndi hún skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, sem kom út í síðustu viku, og benti á að þar væri mikil áhersla lögð á þátttöku kvenna í loftslagsaðgerðum. Hún sagði að hlutverk kvenna sem frumkvöðlar þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum á jaðarsettum svæðum myndi skipta lykilmáli nú þegar afleiðingar loftslagsvárinnar raungerast í auknum mæli.
„Þetta er nokkuð sem við hér á Íslandi þurfum að halda á lofti og getum stutt við, til dæmis í gegnum þróunaraðstoð. Loftslagsmálin munu setja mark sitt á þróunaraðstoð næstu árin. Það er mikilvægt að vestrænar þjóðir styðji jaðarsettari svæði í aðlögunaraðgerðum og í því samhengi er gríðarlega mikilvægt að við gætum þess að þessar aðgerðir taki mið af jafnrétti,“ sagði Eva Dögg.
Konur beittar grófu kynferðisofbeldi – allt í þágu valds, ofbeldis og stríðs
„Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag kvenna sem helgaður er baráttu kvenna fyrir jafnrétti, jöfnuði og friði svo að eitthvað sé nefnt,“ sagði Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni á þingi í dag. „Já, konur hafa verið í fararbroddi öldum saman þegar kemur að baráttu fyrir jöfnuði, jafnrétti, velferð og friði. Það eru ekki konur sem leiða þjóðir í stríð. Það eru hins vegar konur sem leiða vinnu við að veita skjól.“
Hún vildi vekja athygli á þeirri hræðilegu staðreynd að það þyrfti ekki viku af innrásarstríði Rússa í Úkraínu þar til kvenlíkaminn væri orðinn að vígvelli í því hryllilega stríði.
„Konur og stúlkur eru beittar grófu kynferðisofbeldi og limlestingum, allt í þágu valds, ofbeldis og stríðs og gert til að veikja varnir fullvalda þjóðar. Þetta er því miður órjúfanlegur fylgifiskur stríðsátaka þar sem vopnum er beitt en einnig ráðist með mikilli grimmd gagnvart því allra heilagasta. Svívirðan er algjör. Það virðist allt leyfilegt í þessum grimmilega hernaði brjálaðs manns. Við skulum muna þetta. Við skulum alltaf hafa það í huga, þegar við erum að ræða stríðið í Úkraínu, að einskis er svifist. Við eigum að gera allt til að stöðva þetta stríð, við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur,“ sagði Helga Vala.