Nefndarmenn fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans hafa fylgst með hugsanlegri eignabólu á húsnæðismarkaði og óhóflegri skuldasöfnun vegna vænts skorts á húsnæðisframboði á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum. Þrátt fyrir áframhaldandi samdrátt í íbúðabyggingu telur nefndin ekki ástæðu til að þrengja að lánaskilyrðum bankanna þessa stundina.
Reiðubúin að þrengja að á lánamarkaði
Samkvæmt fundargerð nefndarinnar síðastliðinn desembermánuð vænti hún þess að húsnæðisskortur væri yfirvofandi á höfuðborgarsvæðinu. Hún bætti þó við að verðhækkanir væru enn hóflegar og ekki hefðu komið fram vísbendingar um óheilbrigðan skuldavöxt. Aftur á móti væru nefndarmenn sammála um að komi fram merki um annað væri nefndin tilbúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða á lánamarkaði til að draga úr líkum á eignabólu.
Eitt þessara tækja er svokallaður sveiflujöfnunarauki bankanna, en með hækkun hans hækka eiginfjárkröfur þeirra, sem dregur úr möguleikum þeirra til að gefa út ný lán.
Á fundi nefndarinnar í desember síðastliðnum var ákveðið að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum í 0%, þar sem ekki væru komin fram skýr merki um að sveiflutengd kerfisáhætta væri að aukast á nýjan leik, þrátt fyrir skuldavöxt heimila og hækkandi fasteignaverð.
Hækkandi verð en tækjum ekki beitt
Síðan þá hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu haldið áfram að hækka, en í lok febrúar var árshækkunin um 3,1 prósent umfram verðbólgu.
Á sama tíma hefur dregið mjög úr fjölda íbúða í byggingu, líkt og Kjarninn hefur greint frá, en ekki hafa verið jafnfáar íbúðir í byggingu í fjögur ár, samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins.
Þrátt fyrir hækkandi íbúðaverð og minnkandi framboð ákvað fjármálastöðugleikanefndin að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum á fundi sínum á mánudeginum í þessari viku. Í minnisblaði sem nefndin notaði til stuðnings ákvörðun sinni kom fram að þrátt fyrir að verðhækkanirnar væru háar í sögulegu samhengi væru þær í samræmi við hækkun launavísitölu á sama tíma. Ekkert var minnst á minnkandi framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu.