Rétt er að hafa áhyggjur af skuldsettum heimilum og ekki síst hjá ungu fólki „sem hefur spennt bogann til hins ýtrasta til að eignast eigið húsnæði,“ að mati Jóns Steindórs Valdimarssonar þingmanns Viðreisnar. Ástæðan fyrir því eru vaxtahorfur en eins og Jón Steindór benti á í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag er gert ráð fyrir því í nýlegri hagspá Landsbankans að stýrivextir verði orðnir 2,75 prósent í lok árs 2023.
Jón vísaði í nýlega ræðu sína á þingi þar sem hann benti á að fasteignakaup á Íslandi í íslenska krónuhagkerfinu væru „hrein og klár áhættufjárfesting.“ Fasteignaverð hefði hækkað mikið á síðustu misserum á sama tíma og ungt fólk hefði streymt inn á fasteignamarkaðinn. Jón sagðist hafa áhyggjur af því að vaxtabyrðin yrði meiri en lántakendur hefðu reiknað með.
Meginvextir Seðlabanka Íslands hækkuðu um 0,25 prósentustig í morgun, fóru úr 0,75 prósentum í eitt prósent. „Einhverjum kann að þykja að vaxtahækkunin nú, um 0,25 prósentustig, sé léttvæg. Svo er alls ekki. Sá sem skuldar t.d. 30 milljónir þarf að greiða 75.000 kr. meira í vexti á hverju ári og því miður er líklegt að frekari vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið,“ sagði Jón Steindór um stýrivaxtahækkunina og áhrif hennar á greiðslubyrði lántakenda.
Greiðslubyrði geti hækkað um 50 þúsund á mánuði
Hann benti í kjölfarið á að ef að spá Landsbankans gengi eftir ætti greiðslubyrði eðli málsins samkvæmt eftir að hækka meira. „Í nýlegri hagspá Landsbankans er gert ráð fyrir því að stýrivextir Seðlabankans verði orðnir 2,75% í lok ársins 2023. Þá verður vaxtakostnaður af 30 millj. kr. láni orðinn 600.000 kr. hærri á hverju ári, eða um 50.000 kr. í hverjum einasta mánuði.“
Í hagspá Landsbankans sem Jón vísaði í segir að verðbólga hafi verið fyrir ofan efri vikmörk verðbólgumarkmiðs í fjóra mánuði og þrýstingur á peningastefnunefnd því farið vaxandi. Þess má geta að spáin var birt áður en stýrivextir voru hækkaðir í morgun. Greiningardeild Landsbankans gerði engu að síður ráð fyrir að stýrivextir yrðu komnir í 1,5 prósent í árslok og að þeir myndu hækka í 2,5 prósent árið 2022 og í lok árs 2023 yrðu komnir í 2,75 prósent í loks árs 2023.