„Það setur að mér ugg og ég er farin að hafa áhyggjur af því að áætlun um nýtingu og vernd náttúrusvæða, svokölluð rammaáætlun, verði ekki afgreidd úr umhverfis- og samgöngunefnd á þessu þingi. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því.“
Þetta kom fram í máli Þórunnar Sveinbjarnardóttur þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi í dag.
Hún benti á að rammaáætlun hafi ekki verið á dagskrá umhverfis- og samgöngunefndar í morgun. Samkvæmt starfsáætlun séu sex þingdagar virkir eftir þangað til þingið fer í sumarfrí.
Hvað veldur?
Núgildandi rammaáætlun, þar sem virkjanahugmyndir eru flokkaðar í nýtingar-, bið- og verndarflokk, er frá árinu 2013 og er því orðin níu ára gömul.
Þórunn rifjaði það upp að mælt hefði verið fyrir áætluninni í fjórða sinn frá því að hún leit dagsins ljós fyrir tæpum sex árum á þinginu en fimm sinnum hefði þessi sama áætlun, 3. áfangi rammaáætlunar, verið á málaskrá þeirrar ríkisstjórnar sem hér hefur verið við völd.
„Sömu flokkar sem seint og snemma þreytast ekki á því að ræða um mikilvægi endurnýjanlegrar raforku eða raforkuframleiðslu og nauðsyn orkuskipta virðast núna sitja á höndum sér þegar kemur að afgreiðslu þessa mikilvæga áfanga í rammaáætlun og ákvörðunar um nýtingu og vernd náttúrusvæða hér á landi.
Á sama tíma og 4. áfanginn er um það bil að verða tilbúinn og hafin er vinnsla við 5. áfangann situr 3. áfangi rammaáætlunarinnar fastur í háttvirtri umhverfis- og samgöngunefnd eina ferðina enn, rétt um sex árum eftir að hann leit dagsins ljós. Það er ástæða til að spyrja, frú forseti: Hvað veldur?“ spurði hún í lok ræðu sinnar.