Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra „lækaði“ stöðuuppfærslu Loga Bergmanns Eiðssonar fjölmiðlamanns á Facebook í gærkvöldi þar sem hann lýsir yfir sakleysi sínu vegna ásakana um kynferðisbrot.
Ýmsir hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir „lækið“ í ljósi þess að Áslaug Arna er fyrrverandi dómsmálaráðherra og tók meðal annars þátt í myndbandi með yfirskriftinni „Ég trúi“ þar sem þekktir einstaklingar lýstu yfir stuðningi við þolendur kynferðisafbrota.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Áslaug Arna kemst í fréttirnar vegna umræðu um „læk“ en í byrjun september á síðasta ári gagnrýndi hún vararíkissaksóknara fyrir framgöngu hans á samfélagsmiðlum. Hún taldi að hann mætti ekki rýra traust og trú almennings með framgöngu sinni á opinberum vettvangi.
Forsagan er sú að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður birti á Facebook brot úr skýrslutöku lögreglu af þolanda í ofbeldismáli. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari setti „læk“ við færsluna og deildi henni en hún varð mjög umdeild á sínum tíma.
Áslaug Arna sagði í samtali við Vísi þann 8. september að henni fyndist mjög vafasamt af vararíkissaksóknara að tjá sig með þeim hætti sem hann hefði gert á samfélagsmiðlum. „Það má alveg gagnrýna hann fyrir það," sagði hún.
Eyddi myndbandinu
Eftir „læk“ Áslaugar Örnu í gær hefur umræðan einnig snúist um fyrrnefnt mynd sem kom út í maí síðastliðnum þar sem hún kom fram og sagðist trúa þolendur kynferðisofbeldis. Myndbandið var framleitt af hlaðvarpinu Eigin konum í tengslum við metoo-bylgjuna sem þá reið yfir. „Ég tók bara afstöðu með því að styðja þær vinkonur mínar og þolendur sem hafa stigið fram í að segja sína sögu,“ sagði hún í samtali við Vísi á þessum tíma.
Eftir umræðu á Twitter um málið í gær og gagnrýni á Áslaugu Örnu og „lækið“ eyddi Edda Falak, sem heldur úti hlaðvarpinu Eigin konur, myndbandinu og er því ekki hægt að sjá það lengur.
— Edda Falak (@eddafalak) January 6, 2022