Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra áttu orðastað um sóttvarnaaðgerðir í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn spurði ráðherrann meðal annars hvers væri að vænta frá stærsta stjórnarflokknum á næstu vikum og dögum í afléttingu sóttvarnaaðgerða.
Bergþór hóf mál sitt á að segja að þau hefðu verið misvísandi skilaboðin sem bærust frá Sjálfstæðisflokknum „annars vegar þau sem koma með beinum hætti úr ríkisstjórninni, þær ákvarðanir sem kynntar voru síðastliðinn föstudag, og síðan það með hvaða hætti ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tjá sig á tröppum Ráðherrabústaðarins eða í viðtölum“.
„Við heyrum hæstvirtan fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, tala á þeim nótum að hann telji lagaforsendur vera brostnar fyrir þeim sóttvarnaaðgerðum sem við nú erum undirorpin. Hæstvirtir ráðherrar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hafa talað, að ég met með skynsamlegum hætti, í viðtölum og utan ríkisstjórnar, en síðan gerist ekki neitt. Það sem kynnt var hér síðastliðinn föstudag er auðvitað ekkert annað en framlengingaráætlun.“
Hann sagði að áætlun stjórnvalda væri ekki afléttingaráætlun. „Það er verið að framlengja þá stöðu sem er í sóttvörnum hér á landi án þess að nokkrar forsendur séu til. Og meira að segja með þeim hætti að formaður stærsta stjórnarflokksins, hæstvirtur fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, telur lagaforsendur vera brostnar fyrir núverandi aðgerðum.“
Spurði Bergþór hvers væri að vænta frá stærsta stjórnarflokknum á næstu vikum og dögum í þessum efnum, eins og áður segir. „Við vitum að ef einhver situr í gæsluvarðhaldi og í ljós kemur að engar forsendur eru til slíkrar vistunar þá er viðkomandi sleppt hið snarasta, innan dagsins. En nú er samfélaginu haldið í þessari stöðu og kynnt með pompi og prakt að viðhalda skuli slíkum óþarfaaðgerðum í sjö vikur. Ég hef séð líkmenn í jarðarför glaðlegri en ráðherrana sem sátu undir kynningu forsætisráðherra síðastliðinn föstudag.“
Telur skoðanaskiptin heilbrigð
Þórdís Kolbrún svaraði og sagðist gleðjast yfir því að fá tækifæri til að fara yfir þetta mál þótt hún, eins og örugglega flestir aðrir, væri orðin mjög leið á því að tala um það.
„Ég gleðst þess vegna líka yfir þeim teiknum, gögnum, ekki bara vísbendingum heldur tölum, staðreyndum og orðum sem streyma um að við séum á leiðinni út úr COVID-faraldrinum eins og við höfum þekkt hann og að ómíkron-afbrigðið, sem nánast allir eru að smitast af í dag, sé í raun og veru annars eðlis heldur en það sem áður hefur verið. Ég hef sagt það margoft og ítreka það hér að mér finnst þau skoðanaskipti sem birtast við ríkisstjórnarborðið, inni á fundum, úti á tröppum, í viðtölum og annað einfaldlega heilbrigð. Mér finnst það styrkleikamerki frekar en veikleikamerki og mér finnst ágætt að það sé eitthvert pláss og svigrúm fyrir slíkar spurningar og fyrir slíkt samtal.
Mér finnst okkur í ríkisstjórninni líka hafa gengið ágætlega að geta tekist á og geta átt samtal og stundum verið ósammála um eitt stærsta verkefni sem ríkisstjórn og samfélag hefur þurft að takast á við. Ég hef sjálf reynt að tala af yfirvegun um þessi mál. Ég er ósammála þingmanninum um að þetta sé framlengingaráætlun. Þetta er hrein og klár afléttingaráætlun sem ég vonast þó til að hægt verði að taka í stærri skrefum ef við höldum áfram að sjá þá þróun sem blasir við okkur nú. Það skiptir líka máli að við sýnum því skilning að við erum á mismunandi stað gagnvart þessu. Við erum líka sem fólk í þessu landi missmeyk gagnvart þessum sjúkdómi og þessu verkefni. Að því leytinu til reyni ég að sýna því skilning að við séum missmeyk og við þurfum mislangan tíma til þess að vera viss í þeirri trú að þetta sé allt að verða búið eins og við höfum þekkt það. Og ég trúi því svo sannarlega,“ sagði hún.
Bergþór sagði í framhaldinu að honum þætti svarið „heldur lint“ vegna þess að það væru ekki nema nokkrir dagar síðan Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefði sagt að með orðum sínum og framgöngu væru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að grafa undan markmiðum sóttvarnaaðgerðanna.
Spurði hann hvernig þau orð ráðherrans slægju Þórdísi Kolbrúnu.
Bindur miklar vonir við að hægt verði að taka stærri skref
Þórdís Kolbrún svaraði í annað sinn og sagði að þetta verkefni snerist ekki um þá flokka sem standa saman að ríkisstjórn eða einhverja ákveðna leikendur þar inni.
„Þetta verkefni snýst um að ná jafnvægi í því að tryggja það að sóttvarnir séu nægar til að vernda líf og heilsu fólks og að við séum með þær efnahagsaðgerðir sem þarf til að mæta því. En ég ítreka það hér sem ég hef áður sagt, mér finnst við vera komin á þann stað núna að ef við værum að taka við ómíkron-afbrigði og þeirri hættu sem í því felst þá sé ég ekki fyrir mér að við værum að ræða þær samfélagslegu takmarkanir sem við erum með í dag.
Í mínum huga er það alltaf kjarni máls og við eigum að miða okkur og máta okkur við það. Þess vegna fagna ég því að við séum að taka þau skref sem við erum að taka og ég bind mjög miklar vonir við að hægt verði að taka stærri skref innan þess tíma sem lagt var upp með, enda er ekki hægt að festa afléttingar við dagsetningar vegna þess að við þurfum á hverjum tíma að vera viss um að við séum innan ramma laganna þegar kemur að heimild okkar til að beita slíkum takmörkunum,“ sagði hún.