Heiðar Guðjónsson fjárfestir og forstjóri Sýnar hefur selt öll hlutabréf sín í fyrirtækinu og mun láta af störfum sem forstjóri fyrir lok þessa mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til kauphallar.
Fyrir söluna átti Heiðar 12,72 prósenta eignarhlut í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu, eða alls rúmlega 34,1 milljón hluti, í gegnum eignarhaldsfélagið Ursus ehf. Verð fyrir hvert bréf í viðskiptunum nemur 64 krónum og heildarvirði viðskiptanna því tæplega 2,2 milljarðar króna. Verð á hvern hlut er 9,4 prósentum hærra en dagslokagengi bréfa félagsins á föstudag er það var 58,5 krónur á hlut.
Heiðar hefur um langt árabil verið einn af stærstu hluthöfum Sýnar. Fram að sölunni hafði Heiðar aukið við hlut sinn í mánuðinum. Listi yfir stærstu hluthafa félagsins var uppfærður þann 1. júlí síðastliðinn. Þá átti Heiðar rúmlega 27.1 milljón hluti í gegnum Ursus ehf, alls 10,12 prósent í félaginu.
Heiðar hefur gegnt stöðu forstjóra Sýnar frá því í apríl 2019 en hann var áður stjórnarformaður fyrirtækisins á árunum 2014 til 2019. Fram kemur á vef mbl.is að Heiðar hafi sent samstarfsfólki sínu tilkynningu í morgun þar sem hann greindi frá því að hann hafi orðið fyrir heilsubresti fyrr á árinu og í kjölfarið ráðlagt að minnka við sig vinnu.
Gavia Invest orðinn stærsti hluthafinn
Gavia Invest er nú orðinn stærsti hluthafi félagsins eftir viðskipti helgarinnar með hátt í 15 prósenta hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallar. Í tilkynningunni kemur fram að Gavia Invest sé í eigu þriggja félaga, Capital ehf, E&S 101 ehf og AB 891 ehf. Eigendur þessara félaga eru Reynir Grétarsson, Hákon Stefánsson, Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson, Mark Kroloff og Jón Skaftason. Jón er enn fremur fyrirsvarsmaður félagsins Gavia Invest.
Sýn er stór aðili á fjölmiðlamarkaði. Fyrirtækið á og rekur sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Stöð 2 Sport, vefmiðilinn Vísi og útvarpsstöðvarnar Bygljuna, FM957 og X977. Innan veggja fyrirtækisins er rekin stór fréttastofa, sameiginleg fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Þá á Sýn einnig fjarskiptafyrirtækið Vodafone.