Ljóst er að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er hvergi nærri viðmiðum samkeppnisréttar sem gefa vísbendingu um að hún sé orðin skaðleg.
Þetta skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í grein á vef samtakanna.
„Samþjöppun í sjávarútvegi var lífsnauðsynleg og hún hefur sannarlega verið töluverð á umliðnum árum. Það er þessi þróun sem leiddi til þess að sjávarútvegur er í dag hornsteinn margra byggðarlaga, drifkraftur atvinnu allt árið um kring og uppspretta þekkingar og nýsköpunar. Þessi staða er ekki tilviljun, hún skapaðist vegna þess að sjávarútvegur fékk svigrúm til að eflast og njóta hagkvæmni stærðar. Þannig hefur allt samfélagið notið góðs af. Á vettvangi stjórnmálanna hlýtur verkefnið að felast í því að treysta að svo verði áfram.“
Svandís Svavarsdóttir, ráðherra sjávarútvegsmála, sagði í síðustu viku að taka þyrfti til hendinni hvað varði samþjöppun valds og auðmagns í kvótakerfinu. Sagði hún að í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni hafi áhorfendur séð „óþægilega gott dæmi“ um það þegar stjórnmálin og viðskiptin fara í eina sæng „og úr því verður kjörlendi fyrir spillingu, fyrir þróun sem að verður erfið og kemur niður á öllum almenningi“.
Ráðherrann sagði að í grunninn væri sjávarúvegurinn að ganga vel. Kvótakerfið hefði komið til vegna þess að nauðsynlegt var að vernda fiskistofnana og koma í veg fyrir offjárfestingu í greininni. „Sumir hlutar kerfisins hafa algjörlega þjónað þeim markmiðum.“
Hins vegar sagði hún „of fáa hafa orðið of ríka“ og að sjávarpláss hefðu sum hver „í raun og veru algjörlega liðið fyrir þessa kerfisbreytingu. Þetta þýðir það að við þurfum að taka til hendinni að því er varðar samþjöppun valds og samþjöppun auðmagns í þessu kerfi.“
Tilteknar breytingar væri hægt að gera strax, m.a. að skerpa á eftirliti og hefur Svandís þegar hafið þá vinnu. En síðan þurfi að taka kerfið í heild til endurskoðunar, í samræmi við stjórnarsáttmálann.
Sérstakt að setja skorður á útflutningsgrein
Heiðrún Lind segir í grein sinni að „nauðsynleg samþjöppun og hagræðing“ hafi verið ein ástæða þess að fiskveiðistjórnunarkerfinu var komið á. „Nú þykir sumum nóg komið, hagræðingin hafi gengið of langt,“ skrifar hún og því sé mikilvægt að varpa ljósi á hver samþjöppunin raunverulega sé. „Mér segir svo hugur að það átti sig ekki allir á því.”
Sjávarútvegurinn selur um 98 prósent afurða sinna á erlenda markaði og skrifar Heiðrún Lind að það sé „að vissu leyti sérstakt, út frá samkeppnislegum sjónarmiðum, að setja skorður á útflutningsgrein“.
Þegar aflaheimildir þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna séu lagðar saman, þá sé hlutdeild þeirra ríflega 23 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. „Samþjöppun í þessari starfsemi er því víðs fjarri þeirri samþjöppun sem tíðkast á mikilvægum íslenskum neytendamörkuðum,“ segir Heiðrún Lind. „Því er örðugt að skilja hvað átt er við þegar rætt er um að samþjöppun sé jafnvel orðin of mikil í sjávarútvegi. Ef litið er til viðmiða samkeppnisréttarins telst samþjöppunin ekki skaðleg. Og hún er reyndar langt frá því.“
Lögin eru skýr
Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta sem úthlutað er í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila megi halda á meira en tólf prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtækja sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar.
Til að teljast tengdur aðili er þó gerð krafa um meirihlutaeign eða raunveruleg yfirráð. Í því felst að aðili þurfi að eiga meira en 50 prósent í öðrum aðila eða ráða yfir honum með öðrum hætti til að þeir séu taldir tengdir aðilar. Þau mörk hafa verið harðlega gagnrýnd, enda mjög há í öllum samanburði.
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Tíu stærstu með rúmlega 67 prósent kvótans
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins samanlagt á 53 prósentum af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent.
Samhliða þessari þróun hefur hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja aukist gríðarlega. Hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld frá byrjun árs 2009 og út árið 2020 var alls um 665 milljarðar króna, samkvæmt sjávarútvegs gagnagrunni Deloitte. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna.
Fjórar blokkir með meirihluta kvótans
Þegar Fiskistofa birti síðast tölur um samþjöppun aflaheimilda var eitt fyrirtæki yfir þeim lögbundnu tólf prósent hámarki, Brim sem skráð er á íslenskan hlutabréfamarkað. Brim leysti úr þeirri stöðu 18. nóvember síðastliðinn þegar það seldi aflahlutdeild fyrir 3,4 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur. Eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, Guðmundur Kristjánsson, er forstjóri Brim og stærsti einstaki eigandi þess fyrirtækis.
Fjórar blokkir, kenndar við Samherja, Brim, Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélagið, halda á rúmlega 60 prósent af öllum úthlutuðum kvóta á Íslandi en aðilar innan þeirra eru ekki í öllum tilvikum skilgreindir sem tengdir samkvæmt gildandi lögum.