Fram undan eru afléttingar sóttvarnarráðstöfunum sem verða innleiddar með stuttum en öruggum skrefum. Þetta kemur fram í grein sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel Jónsdóttir, settur forstjóri Landspítalans, skrifuðu saman og birtist á Vísi í morgun.
Þar segir að brýnt sé „að skoða hvernig megi létta á sóttvarnarráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi. Í samráði við sóttvarnalækni eru nú allar mögulegar afléttingar í skoðun með hliðsjón af skynsemi og öryggi. Næstu skref eru að aflétta neyðarstigi spítalans. Áður en það er gert verðum við að vera fullviss um að slíkt sé óhætt. Það verður gert að vel ígrunduðu máli, með hliðsjón af nýjustu spálíkönum og með hliðsjón af gögnum frá okkar færustu sérfræðingum.“
Í greininni kemur ekki fram hvenær nákvæmlega von sé á afléttingum.
Á neyðarstigi frá því í lok desember og aðgerðir nýlega hertar
Landspítalinn hefur verið á neyðarstigi frá 28. desember í fyrra og einungis níu dagar eru síðan að harðar sóttvarnaraðgerðir innanlands voru hertar enn frekar. Þá var tilkynnt að börum og spilasölum yrði gert að loka, einungis tíu manns mættu almennt koma saman og ekki yrði lengur hægt að bjóða fleiri gesti velkomna á viðburði gegn því að þeir færu í hraðpróf. Þær aðgerðir áttu að gilda til 2. febrúar.
Bjartari tímar í kortunum
Í grein sinni rekja Willum Þór og Guðlaug Rakel árangurinn sem þau segja að hafi náðst baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og segja það frumskyldu stjórnvalda að tryggja þær aðstæður að allir geti sótt sér viðunandi heilbrigðisþjónustu. „Við ætlum okkur út úr þessum faraldri og öflugt heilbrigðiskerfi er því forgangsverkefnið.“
Sérstaklega hrósa þau Covid-19 göngudeildinni og gjörgæslumeðferð Covid-19 sjúklinga.
„Það er ljóst að bjartari tímar eru í kortunum og við þurfum að stíga varfærin skref í átt að afléttingum. Þrátt fyrir að einkenni ómikron séu vægari og minna sé um sjúkrahúsinnlagnir þá er fólk enn að veikjast. Eiginleikar ómikron veirunnar valda því að mikið er um smit á meðal barna og ungmenna, með tilheyrandi áhrifum á fjölskyldur og samfélagið í heild.
Heilbrigðiskerfið í heild sinni er að takast vel á við þessa áskorun en það er eingöngu gert með miklu vinnuframlagi heilbrigðisstarfsfólks, mikilli samvinnu heilbrigðisstofnana um allt land, og með samstilltum aðgerðum – þ.e. sóttvarnaraðgerðum og aðgerðum stjórnvalda til að létta á álagi og tryggja mönnun.“