Fyrirhugað er að semja lagafrumvarp í heilbrigðisráðuneytinu og lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til þess að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á þeirra borð og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga.
Ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla upplýst um málið.
Þá yrði með fyrirhuguðu lagafrumvarpi sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga.
Áformin hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og umsagna. Þar segir að ýmis álitamál hafi þegar komið upp í undirbúningsvinnu að lagabreytingunum. Er sérstaklega nefndur mögulegur fælingarmáttur þolenda að leita sér heilbrigðisþjónustu, ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna að hafa samband við lögreglu, mikilvægi þess að virða sjálfsákvörðunarrétt þolanda, hver yrði forvarnarþáttur og skilaboð til samfélagsins með breytingu á lögum og hvernig styrkir það stöðu þolenda og aðstandanda þeirra (oft börn) ef ekkert er að gert. „Þessi atriði og fleiri þarf að ræða ítarlega með haghöfum við gerð frumvarps,“ segir í upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins í samráðsgáttinni.
Gæta skal fyllstu þagmælsku
Hvað heimilisofbeldi varðar þá skulu heilbrigðisstarfsmenn, samkvæmt gildandi lögum, gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu. Aðeins má víkja frá þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða samkvæmt ákvæðum annarra laga. „Skilyrðið um brýna nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera heldur matskennt og þolendum þar með ekki endilega til hagsbóta,“ segir í samantekt ráðuneytisins á málinu.
Fyrirhugað er að breyta síðari málslið ákvæðisins með eftirfarandi hætti og bæta nýjum málslið við hann. Annar og þriðji málsliður 1. mgr. 17. gr. um heilbrigðisstarfsmenn verði svohljóðandi:
„Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar, þ.e. ef líf og heilsa sjúklings er hætta búin vegna ytri aðstæðna eða ef téð komuástæða sjúklings er vegna heimilisofbeldis eða ofbeldis í nánu sambandi sem geti ógnað lífi og heilsu viðkomandi. Í þessum tilvikum er heilbrigðisstarfsmanni heimilt að tilkynna lögreglu um aðstæður og komuástæðu sjúklings til þess að lögregla geti metið aðstæður og gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nauðsynlega vernd sjúklings og stuðning.“
Vegna alvarleika heimilisofbeldismála, stöðu þolenda og óljósra heimilda til að tilkynna til lögreglu „þykir vera ríkt tilefni til að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi,“ segir þar ennfremur. Lagabreyting myndi að mati ráðuneytisins stuðla að því að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem ætla má að þolendur slíks ofbeldis veigri sér við að leita réttar síns og þekki réttindi sín oft ekki nægilega vel. Án lagabreytingar geta lög og reglur, sérstaklega um þagnarskyldu, hamlað framgangi mála hjá lögreglu og í einhverjum tilfellum komið í veg fyrir að þolandi fái viðeigandi aðstoð. Þannig getur lagaumhverfið viðhaldið ofbeldisaðstæðum þolanda í stað þess að stíga inn í aðstæður og veita alla tiltæka aðstoð sem þolandi á rétt á.
Markmið með breytingunni er að sögn heilbrigðisráðuneytisins að auka þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og að auka vernd þolenda ofbeldis. „Aðferðin við að ná því markmiði er að brúa bilið sem vantar í löggjöfina þannig að ákvæði um þagnarskyldu og annað hindri ekki framvindu mála í þeim tilvikum sem hér er lýst.“
Konur eru líklegri að vera þolendur heimilisofbeldis og heilbrigðisstarfsmenn eru gjarnan þeir fyrstu sem fá vitneskju um ofbeldið. Með orðinu heimilisofbeldi er í þessu sambandi átt við ofbeldi milli náinna eða tengdra aðila s.s. milli núverandi eða fyrrverandi maka eða sambúðaraðila hvort sem aðilar eru skráðir í sambúð eða ekki, af hálfu niðja eða annarra sem búa á heimili viðkomandi eða eru í hans umsjá.
40 prósent þolenda koma ítrekað vegna áverka
Eðli heimilisofbeldis kemur meðal annars fram í stigmögnun (e. escalation) ofbeldisins. Því eru þolendur heimilisofbeldis útsettir fyrir stigvaxandi alvarleika áverka og alvarlegra afleiðinga á andlega og líkamlega heilsu, segir m.a. í fylgiskjölum við áformunum í samráðsgátt. Sömuleiðis sýna rannsóknir að þessi sjúklingahópur kemur ítrekað á bráðamóttökur með áverka eftir ofbeldið. Íslensk rannsókn frá árinu 2022 sýndi að 40 prósent þeirra kvenna sem koma á bráðamóttökuna í Fossvogi eftir heimilisofbeldi komu ítrekað vegna líkamlegra áverka af völdum heimilisofbeldis. Þá koma 4 af hverjum 10 konum sem koma vegna áverka á spítalann, út af áverkum í kjölfar heimilisofbeldis.
„Nándin sem felst í tengslunum milli þolanda og geranda gerir það að verkum að erfiðara er fyrir þolanda að leita sér aðstoðar t.d. hjá lögreglu,“ stendur í samantekt ráðuneytisins. „Vegna þeirrar stöðu sem þolendur heimilisofbeldis eru í þá væri skynsamlegt að skýra núverandi heimildir heilbrigðisstarfsmanna til að hafa samband við lögreglu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.“
Rannsóknir hafi sýnt að snemmtæk inngrip og tenging milli kerfa hefur jákvæð áhrif í för með sér, þolendum heimilisofbeldis til hagsbóta. Með heildstæðri og snemmtækri þjónustu á að leitast við að koma í veg fyrir stigmögnun ofbeldisins og ítrekaðar komur vegna þess og bæta þannig lífsgæði þolenda og aðstandenda þeirra. „Sömuleiðis er leitast við að taka af vafa heilbrigðisstarfsfólks um heimild um að rjúfa þagnarskyldu þegar sjúklingur kemur vegna heimilisofbeldis.“
Ráðuneytið telur að með lagasetningunni fái þolendur heimilisofbeldis aukna vernd með því að stjórnvöld sinni jákvæðum skyldum sínum og stígi inn í ofbeldismál í auknum mæli. Þannig verði lögreglu t.d. kleift að hafa afskipti af gerendum og tryggja vernd þolenda í heimilisofbeldismálum.
Í formálsorðum samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl samningurinn), hafa aðildarríki Evrópuráðsins viðurkennt að ofbeldi gegn konum, sem er í eðli sínu kynbundið ofbeldi, er eitt helsta félagslega tækið til að neyða konur til að skipa lægri sess í samfélaginu en karlar. Einnig kemur fram að aðildarríkin hafi gert sér grein fyrir því mikla áhyggjuefni að konur og stúlkur verði oft fyrir alvarlegu ofbeldi. Þá gerðu aðildarríkin sér grein fyrir því að konur og stúlkur eru í meiri hættu en karlar að verða fyrir kynbundnu ofbeldi og að konur verða hlutfallslega oftar fyrir heimilisofbeldi en karlar sem geta þó einnig orðið fyrir slíku ofbeldi.
Karlar eru líklegri en konur til að vera hættulegri samborgurum sínum. Í skýrslu sem embætti ríkislögreglustjóra gaf út í mars á þessu ári kom fram að á árunum 2010-2020 var fjöldi allra manndrápsmála 21. Konur voru fórnarlömb í ellefu þessara mála. Gerendur voru karlar í miklum meirihluta málanna eða 19 af 21.
Þegar litið er til makaofbeldis þá eru gerendur í 83 prósent tilvika karlar og í jafn háu hlutfalli eru þolendur konur. Algengasta verknaðaraðferðin var hnífstunga/eggvopn (38 prósent) og kyrking sú næstalgengasta (24 prósent). Þegar horft er til ofbeldis af hálfu fjölskyldumeðlims skráð hjá lögreglu á árinu 2021 þá eru gerendur í 79 prósent tilvika karlar og þolendur í 54 prósent tilvika konur.
Annan hvern dag
Heimilisofbeldi er stærsta ógn við lýðheilsu kvenna í heiminum, segir í samantekt heilbrigðisráðuneytisins. Heimilisofbeldi í garð kvenna er mannréttindabrot og hefur víðtækar neikvæðar afleiðingar á líf og líðan þolenda, sem og aðstandenda þeirra sem oft eru börn að aldri. Algengi heimilisofbeldis í garð kvenna á Íslandi er um 22 prósent og annan hvern dag kemur kona með líkamlega áverka í kjölfar heimilisofbeldis á bráðamóttöku Landspítala.
Heimilisofbeldi er algengast hjá konum sem eru á barneignaraldri og rannsóknir sýna að ofbeldi hefst gjarnan þegar konan verður ófrísk, sem hefur neikvæð áhrif á meðgöngu, fæðingu og fyrstu ár barnsins. Samkvæmt íslenskum rannsóknum eru um 20 prósent íslenskra mæðra beittar ofbeldi á meðgöngu.
Breskar rannsóknir sýna að 14 prósent kvenna sem deyja á meðgöngu höfðu áður sagt heilbrigðisstarfsmanni frá heimilisofbeldi. „Ekkert bendir til að niðurstöður sambærilegrar rannsóknar hérlendis yrðu á annan máta,“ segir í gögnum heilbrigðisráðuneytisins. „Rannsóknir sýna að ofbeldi erfist og þau börn sem alast upp við ofbeldishegðun foreldra eru bæði líklegri til að verða gerendur og þolendur heimilisofbeldis í framtíðinni.“
Með skýrari heimildum heilbrigðisstarfsfólks til að veita þolendum heimilisofbeldis margþættari þjónustu með því að tengja lögreglu í þeirra mál er vonast til að bæta lýðheilsu þolenda og aðstandenda þeirra. „Án lagabreytingar munu lög og reglur, sérstaklega um þagnarskyldu, hamla framgangi mála hjá lögreglu og í einhverjum tilfellum koma í veg fyrir að þolandi fái viðeigandi aðstoð,“ segir í rökstuðningi heilbrigðisráðuneytisins vegna áformanna. „Þannig mun lagaumhverfið viðhalda ofbeldisaðstæðum þolanda í stað þess að stíga inn í aðstæður og veita alla tiltæka aðstoð sem þolandi á rétt á.“