Læknum á Íslandi er meinað að beita gagnreyndum og viðurkenndum meðferðarúrræðum við lifrarbólgu C, sem þýðir að heilbrigðisþjónusta á Íslandi er ekki lengur sambærileg við þjónustu annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknaráðs Landspítalans, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag um ný lyf við lifrarbólgu C.
Tilefnið er dómsmál sem Fanney Björk Ásbjörnsdóttir hefur höfðað gegn ríkinu vegna þess að henni hefur verið synjað um nýjustu lyf við lifrarbólgu C. Málið hefur fengið flýtimeðferð fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og verður líklega tekið fyrir í ágúst.
Fá ekki að gefa ný lyf þrátt fyrir augljósa þörf
Fanneyju og öðru fólki með lifrarbólgu C á Íslandi hefur verið synjað um ný lyf sem geta upprætt veiruna vegna þess að kaup á lyfjunum rúmast ekki innan ramma fjárlveitinga. Bæði Lyfjagreiðslunefnd og Sjúkratryggingar Íslands hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé svigrúm til kaupa á svo dýrum lyfjum. Ef dómstólar staðfesta þessa niðurstöðu og ákvörðunin fær að standa á „forsendum fjárheimilda óháð þörf hinna veiku á slíkri lífsnauðsynlegri meðferð og ráðleggingum lækna er sú útkoma bæði siðferðilega og læknisfræðilega óásættanleg og óhugsandi,“ segir Reynir.
„Ný tegund lyfja sem upprætir sýkinguna á nokkrum vikum og þolist vel hefur komið fram á allra síðustu árum og er m.a. notuð annars staðar á Norðurlöndum. Vegna kostnaðar hefur meðferðin víðast verið takmörkuð við þann hóp sjúklinga sem eru með umtalsverða örmyndun í lifur eða komnir með skorpulifur,“ segir Reynir í grein sinni. „Á Íslandi er enn stuðst er við eldri meðferðarúrræðin sem hafa minni virkni, tíðari og alvarlegri aukaverkanir og þolast mun verr af sjúklingum en hin nýju lyf.“
Sérfræðingar í lifrarsjúkdómum hafi bent á nauðsyn þess að fá aðgang að þessum nýju meðferðarúrræðum, og að talsverður hópur fólks geti ekki beðið lengur eftir lyfjunum. „Þrátt fyrir augljósa þörf þessara sjúklinga á frekari meðferð hefur reynst ómögulegt að fá heimild til að beita nýju lyfjunum.“
Afleiðingar dómsmáls víðtækar og hafa fordæmisgildi
Sem fyrr segir hefur ríkinu verið stefnt vegna málsins. Reynir segir dóm í þessu máli, ef ákvörðun valdhafa fái að standa, geta haft mun víðtækari þýðingu og fordæmisgildi en blasi við í fljótu bragði. „Sú siðferðilega kvöð á heilbrigðisyfirvöldum að veita þessum sjúklingahópi bestu mögulega og lífsnauðsynlega meðferð breytist ekki.“
Reynir segir að fjárveitingar til lækninga verði að sníða að verkefnum, frekar en að reyna að knýja þörf og úrræði að vanáætluðum fjárheimildum. Sveigjanleiki verði að vera til staðar til að taka á málum sem þessum.
„Fyrir læknum eru allir sjúklingahópar og veikindi þeirra jafnrétthá. Grundvallaratriði er að aðgengi að viðurkenndri og gagnreyndri meðferð sé miðlað jafnræðisgrundvelli óháð því hver á í hlut og hver veikindin eru.“ Það sé mikilvægt að fjárveitingavaldið og heilbrigðisyfirvöld komi saman og beiti sér fyrir sátt í málinu, og að sá hópur sem er í brýnni þörf geti hafið meðferð strax.