Farsímaáskriftum á Íslandi fjölgaði á ný í fyrra eftir að hafa fækkað á árinu 2020. Það var í fyrsta sinn frá árinu 1994 sem það gerðist og nokkuð ljóst að ástæða þess var kórónuveirufaraldurinn.
Alls voru áskriftirnar 497.019 um síðustu áramót og þeim fjölgaði um 4,5 prósent milli ára. Samhliða þessari þróun stórjukust tekjur fjarskiptafyrirtækja vegna farsímaþjónustu. Þær voru 14 milljarðar króna árið 2020 en 17,5 milljarðar króna í fyrra. Alls jukust heildartekjur fyrirtækjanna um 6,1 milljarð króna í fyrra og voru 72,4 milljarðar króna. Aukningin í farsímatekjum var því ábyrg fyrir 57 prósent af allri tekjuaukningunni.
Þrjú fyrirtæki – Síminn, Vodafone sem tilheyrir Sýn-samstæðunni og Nova – skipta farsímamarkaðinum bróðurlega á milli sín. Samanlögð markaðshlutdeild þessara þriggja fyrirtækja var 95,7 prósent á síðasta ári. Það er nánast sama hlutdeild og þau höfðu ári áður.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2021.
Snjallsímabyltingin
Fyrsta aðgengilega tölfræðiskýrsla Fjarskiptastofu, sem hét áður Póst- og fjarskiptastofnun, um fjarskiptamarkaðinn kom út árið 2005. Þar voru birtar tölur um fjölda skráðra GSM-áskrifta aftur til ársins 1994, þegar þær voru 2.119 talsins. Næstu árin fjölgaði þeim jafnt og þétt og voru orðnar 284.521 árið 2005.
Með snjallsímabyltingunni, sem kom til eftir að fyrsti iPhone-inn var kynntur til leiks sumarið 2007, breytist hlutverk símans umtalsvert og hann fór að nýtast í mun fleiri hluti en áður. Nú til dags er þessi litla tölva í vasa okkar flestra helsta tækið sem notað er til að nálgast afþreyingu, samfélagsmiðla og fréttir. Hún er auk þess myndavél, hallamál, veðurfræðingur, næringarráðgjafi og ýmislegt annað.Árið 2007 var heildarfjöldi GSM-áskrifta kominn í tæplega 312 þúsund hérlendis. Árið 2010 var fjöldinn kominn í 375 þúsund og 2014 fór hann yfir 400 þúsund.
Fjöldinn náði því að vera tæplega 476 þúsund árið 2019 en, líkt og áður sagði, skrapp hann saman árið 2020 í fyrsta sinn frá því að farið var að halda utan um þessar tölur.
Í fyrra bættust svo við 21.480 nýjar áskriftir.