Lög sem heimila heilbrigðisráðherra með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að skylda ferðamann sem kemur frá hááhættusvæði kórónuveirunnar um að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi voru samþykkt á Alþingi á fimmta tímanum í nótt með 28 atkvæðum. Einn þingmaður greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 23 þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Í þeim hópi var Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ellefu þingmenn voru fjarverandi atkvæðagreiðsluna, m.a. tveir ráðherrar, þau Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ráðherra ferðamála, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Fulltrúar minnihlutans lögðu fram breytingatillögur sem allar voru felldar í atkvæðagreiðslu. Fundur velferðarnefndar vegna málsins dróst mjög á langinn í gær. Til stóð að hefja aðra umræðu kl. 21.30 en af því varð ekki og hófst hún ekki fyrr en hálf þrjú í nótt. Sú þriðja og síðasta hófst svo 4.18 og lauk með atkvæðagreiðslu um klukkan hálf fimm í morgun.
Samkvæmt lögunum er sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu frá því að skylda ferðamann í sóttkví sýni hann með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.
Að fenginni tillögu sóttvarnalæknis skal ráðherra í reglugerð skilgreina hááhættusvæði og við skilgreininguna er m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórórunveirunnar. Einnig er heimilt að skilgreina tiltekið land sem hááhættusvæði enda þótt einungis afmarkaður hluti þess uppfylli skilgreind skilyrði í reglugerð.
Þá er dómsmálaráðherra heimilt með reglugerð með að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að kveða á um að útlendingum sem koma frá eða dvalið hafa á hááhættusvæði, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, sé óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir uppfylli almenn komuskilyrði laganna og reglugerðar um för yfir landamæri. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um undanþágur frá banni við komu til landsins, m.a. vegna búsetu hér á landi og brýnna erindagjörða.
Báðar lagabreytingarnar eru til bráðabirgða og gilda frá deginum í dag og til 30. júní.