„Við erum öll að vonast til þess að endurheimta venjulegt líf sem fyrst,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við upphaf blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar í Hörpu í dag. Hann sagði það mikil vonbrigði að afar fámennur hópur geti valdið jafnmikilli röskun á samfélaginu og raun ber vitni. „Við teljum því nauðsynlegt að bregðast við.“
Viðbrögðin, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti, felast m.a. í því að seinka innleiðingu litakóðunarkerfis við landamærin um mánuð eða til 1. júní. Þá er stefnt að því að um 65 prósent fullorðinna landsmanna verði komin með að minnsta kosti fyrri sprautu bóluefnis. Á stuttri glærukynningu sem Katrín hélt kom fram að öllum takmörkunum innanlands verður aflétt þegar búið verður að verja stærsta hluta fullorðinna með að minnsta kosti fyrri skammti af bóluefni. Ekki kom fram hvaða fjölda er þar miðað við.
Katrín nefndi í erindi sínu að mjög erfitt væri að tryggja alfarið að veiran leki ekki yfir landamærin. Í raun hefðu aðgerðir á landamærum verið hertar frá því að þær voru fyrst settar í ágúst og þær væru skilvirkar og góðar. Katrín sagði eðlilegt, eftir það sem gerst hefur undanfarna daga, að kallað sé eftir því að varnir séu treystar á landamærum. Á meðan við værum að ná ákveðnum markmiðum í bólusetningum væri mikilvægt að herða takmarkanir á landamærum.
Við uppsveiflu í faraldrinum nú verði brugðist með lagafrumvörpum sem annars vegar heimila sóttvarnalækni tímabundið að skikka alla sem eru að koma frá löndum þar sem nýgengi smita er meira en þúsund á hverja 100 þúsund íbúa í sóttvarnarhús. Engar undanþágur verði veittar frá því. Sömuleiðis verði dvöl í sóttvarnahúsi meginreglan fyrir þá sem eru að koma frá löndum þar sem nýgengið er 750-1000 á hverja 100 þúsund íbúa, en geti viðkomandi sýnt fram á viðunandi aðstæður til að dvelja á meðan á sóttkví stendur, sé hægt að veita undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi.
Þá mun dómsmálaráðherra, samkvæmt frumvarpi, fá heimild til að banna ónauðsynlegar ferðir hingað til lands frá löndum þar sem nýgengi smita er umfram 1000 á hverja 100 þúsund íbúa. Með þessu tvennu, skyldudvöl í sóttvarnahúsi annars vegar og bann við ónauðsynlegum ferðum hins vegar, vonast Katrín til að betur sé hægt að ná utan um stöðuna heldur en ef einungis væri notast við sóttvarnahús.
Sagði Katrín að samhliða bólusetningum verði hægt að breyta fyrirkomulaginu hægt og bítandi með útgáfu vikulegs áhættumats. Innleiðingu litakóðunarkerfis á landamærunum, sem átti að vera grunnurinn að ákveðinni afléttingu reglna á landamærum, verður hins vegar frestað um mánuð.
Áfram er fyrirhugað að byggja á litakóðunarkerfi ESB en einnig að gefa út íslenskt, svæðisbundið áhættumat frá og með 7. maí. Óbreyttar reglur munu hins vegar gilda á landamærunum, um öll lönd, til 1. júní en áfram munu þeir sem eru bólusettir eða hafa fengið COVID sæta einni skimun.
Katrín sagði fulla samstöðu um aðgerðirnar innan ríkisstjórnarinnar og vænti þess að lagafrumvörpunum yrði dreift á Alþingi þegar í kvöld. Með þessu væri verið að stíga varfærin skref, „annars vegar að herða á landamærunum tímabundið á meðan við komumst fyrir vind í bólusetningum og hins vegar með raunhæfa áætlun um það hvernig við getum stigið skref inn í eðlilegt samfélag“.
Hér má lesa tilkynningu stjórnvalda um hinar hertu aðgerðir á landamærum.