Seðlabanki Íslands hefur veitt lífeyrissjóðum, eða öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar, undanþágu til að fjáfesta erlendis fyrir samtals 9,4 milljarða króna. Alls fá lífeyrissjóðir landsins að kaupa eignir utan landssteinanna fyrir tíu milljarða króna á ári frá byrjun árs 2016 og til loka árs 2020, samkvæmt áætlun stjórnvalda um losun hafta sem kynnt var í byrjun júní. Því hefur nánast allri þeirri heimild þegar verið ráðstafað til sjóða sem sótt hafa um að nýta sér hana. Þetta kemur fram í greinargerð um framgang áætlunar um losun hafta sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, birti í dag.
Ein þeirra aðgerða sem áætlun stjórnvalda um losun hafta, sem kynnt var í Hörpu í byrjun júní síðastliðinn, var sú að hleypa lífeyrissjóðum út fyrir höft til að fjárfesta. Þeir hafa ekki getað fært fé út fyrir höft til erlendra fjárfestinga frá því að fjármagnshöft voru sett á árið 2008. Vegna þessa hafa lífeyrissjóðirnir þurft að binda mun meira fé í innlendum fjárfestingum, hlutabréfum, skuldabréfum og hlutdeildarskirteinum sjóða, en þeir hefðu kosið að gera. Vegna þessa eru þeir orðnir mjög stórir eigendur að íslensku viðskiptalífi og skuldum innlendra aðila.
Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra kemur fram að fyrir liggi að samanlagt mun heimild þessara lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis nema tíu milljörðum króna og hefur fjárfestingarheimildinni verið skipt á milli þeirra með þeim hætti að annars vegar hefur verið horft til stærðar sem fengið hefur 70 prósent vægi og hins vegar til hreins innstreymis sem fengið hefur 30 prósent vægi. Útreikningurinn byggir á upplýsingum úr nýjustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði, tölum frá árinu 2013, og munu undanþágur miðast við að heimild hvers aðila gildi til loka þessa almanaksárs. Þeim lífeyrissjóðum og vörsluaðilum séreignarsparnaðar sem áhuga hafa á að sækja um undanþágu til framangreindra viðskipta hefur verið bent á að senda inn umsókn til gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. „Hefur Seðlabankinn nú þegar veitt þeim aðilum sem sótt hafa um undanþágu í samræmi við framangreint heimild til að fjárfesta erlendis fyrir samtals kr. 9.391.224.000.“