Boðað afnám fjármála- og efnahagsráðherra á nærri tvö þúsund tollanúmerum á árunum 2016 og 2017 mun draga úr útgjöldum meðalheimilis um 30 þúsund krónur á ári, samkvæmt útreikningum Viðskiptaráðs Íslands. Það er einnig mat ráðsins að afnám tolla á matvæli myndi skila enn meiri sparnaði fyrir heimilin í landinu, til viðbótar við 30 þúsund krónur sem sparast við fyrirhugðarar breytingar.
Fyrir helgi tilkynnti ráðuneyti Bjarna Benediktssonar að tollar á fatnað og skó falli niður um næstu áramót og afnám annarra tolla, að undanskildum tollum á matvöru, falli niður áramótin 2016/2017.
„Neysluskattar munu lækka um um 1,8 milljarða króna vegna þeirra aðgerða,“ segir í frétt Viðskiptaráðs um afnám tolla á fatnaði og skóm. „Ávinningurinn af niðurfellingunni er tvíþættur. Annars vegar munu neytendur njóta lægri verða en áður. Samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs mun verð á fatnaði og skóm hérlendis lækka um 13% við afnám tolla. Hins vegar munu umsvif innlendrar verslunar aukast vegna samkeppnishæfara verðlags í alþjóðlegum samanburði. Það skilar neytendum frekari ávinningi í formi aukinnar samkeppni og fjölbreyttara vöruúrvals.“
Viðskiptaráð vísar í fyrri greiningu á áhrifum afnáms vörugjalda á verðlag, sem sýndi að verð á sjónvörpum og útvörpum lækkaði um 19 prósent í kjölfar breytinganna. „Jafnframt lækkaði álagning verslana lítillega í kjölfar breytinganna. Afnám vörugjalda skilaði sér því að fullu til neytenda og gott betur.
Reynslan af afnámi vörugjalda er vísbending um jákvæð áhrif skattalækkana á samkeppni. Þegar vöruverð lækkar eykst velta með viðkomandi vörur á móti. Verslanir þurfa því að leggja minna á hverja vöru til að skila óbreyttum hagnaði. Af þessu að áætla að afnám tolla muni skila sér að fullu til neytenda í formi lægra vöruverðs líkt og raunin var með afnám vörugjalda,“ segir Viðskiptaráð.
Hvetja stjórnvöld til að afnem tolla á matvæli
Samkvæmt útreikningum Viðskiptaráðs myndi afnám tolla á matvörur skila meðalheimili um 76 þúsund króna sparnaði til viðbótar við þann 30 þúsund króna sparnað sem fæst við afnám tolla á aðrar vörur. „Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að afnema jafnframt tolla á matvörur og samhliða því umbreyta styrkjafyrirkomulagi landbúnaðarins. Í nýrri skoðun ráðsins, „Hverjar eru okkar ær og kýr?“, kemur fram að tollvernd leiðir til hærra matvælaverðs. Þannig eru tollvernduð matvæli allt að 59% dýrari hérlendis en í öðrum ríkjum. Samkvæmt áætlun ráðsins myndi afnám tolla á matvæli skila meðalheimili um 76 þúsund kr. sparnaði til viðbótar við þær 30 þúsund kr. sem sparast við afnám tolla á aðrar vörur.5 Jákvæð áhrif slíkrar skattalækkunar á lífskjör væru því veruleg.“