Reitir fasteignafélag og Reykjavíkurborg skrifuðu í gær undir samkomulag um uppbyggingu 440 íbúða á svokölluðum Orkureit, sem er á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Gert er ráð fyrir því að uppbygging á reitnum geti hafist á fyrri hluta ársins 2022.
Kjarninn heyrði í Guðjóni Auðunssyni forstjóra Reita og spurði hann út í fyrirhugaða uppbyggingu. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvers konar íbúðir stæði til að byggja á reitnum. Það segir Guðjón ekki alveg ljóst.
„Nú á eftir að hanna þær endanlega. Það er í sjálfu sér bara búið að magntaka lóðina og draga upp ytri línur af byggðinni eins og hún mun líta út en menn hafa í sjálfu sér dálítið frjálsar hendur ennþá með það hvernig hönnunin á íbúðunum endanlega er,“ segir Guðjón.
Hann bætir við að það sé ekkert víst að Reitir munum fylgja verkefninu eftir alveg til enda og ákveða hvernig hönnun á einstökum íbúðum er. „Það getur vel verið að verkefnið að hluta til eða öllu leyti verði selt og þeir sem halda á því áfram hafi hærri rödd en við um það hvernig þetta verði nákvæmlega útfært,“ segir Guðjón.
Gamla Rafveituhúsið, sem oft er kallað Orkuhúsið þrátt fyrir að heilbrigðisstarfsemi undir nafni Orkuhússins sé fyrir allnokkru komin á nýjan stað í Urðarhvarfi í Kópavogi, mun áfram standa á lóðinni innan um nýbyggingarnar.
„Það er að hluta friðað, hafi menn haft áhuga á að fjarlægja það er það hreinlega ekki heimilt og það fær bara nýtt hlutverk. Ég get ekki alveg sagt frá því hvað það er, því það er ekki búið að klára samninga, en húsið mun standa og fær nýtt hlutverk,“ segir Guðjón.
Reitir hafa í COVID-19 faraldrinum lánað húsið til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu undir sýnatökur og bólusetningar. „Svo tekur það vonandi enda fyrr en seinna og síðan fer húsið bara í önnur not,“ segir Guðjón.
Deiliskipulag reitsins, sem brátt verður auglýst formlega af hálfu borgarinnar, byggir á vinningstillögu Alark-arkitekta. Tillagan gerir ráð fyrir þriggja til átta hæða hárri byggð með skjólgóðum og sólríkum inngörðum sem eru að hluta til opnir og tengdir saman með göngu- og hjólastígum. Byggðin er hæst úti við Suðurlandsbraut og Grensásveg en lægri út að Ármúlanum. Hægt er að kynna sér skipulagið betur á vefsvæði sem hefur verið sett upp fyrir reitinn.
Telur „oftúlkun“ að ræða um hótun af hálfu Reita
Reykjavíkurborg hefur uppi áform um að setja upp nokkur smáhýsi fyrir heimilislausa íbúa á vannýttu borgarlandi handan Suðurlandsbrautarinnar og voru þau áform samþykkt í borgarráði í síðustu viku. Reitir settu sig upp á móti þessum skipulagsáformum í fyrra.
Í umsögn fasteignafélagsins sagði að uppbygging smáhýsanna, fimm talsins, myndi setja göngutengingu Orkureitsins yfir í Laugardal „í uppnám“ og að smáhýsin gætu jafnframt haft verulega neikvæð áhrif á ímynd og sölumöguleika íbúðanna sem Reitir ætla að byggja.
„Verði deiliskipulagið samþykkt með tilheyrandi neikvæðum áhrifum, áskilur lóðarhafi sér rétt til að endurskoða uppbyggingaráform á Orkureitnum. Rétt er að minna á að stefna borgaryfirvalda í skipulagsmálum er sú að þétta byggð meðfram svokölluðum þróunarás og fyrirhugaðri legu borgarlínu. Að mati Reita væri borgin með umræddri skipulagsákvörðun að vinna gegn þeirri stefnu, verði niðurstaðan á þá leið að lóðarhafi hætti alfarið við uppbyggingaráform sín og haldi áfram fasteignarekstri núverandi bygginga á lóðinni eins og verið hefur,“ sagði í umsögn Reita til skipulagsyfirvalda Reykjavíkur.
Spurður út í þetta segist Guðjón telja að athugasemdir Reita hafi „verið málefnalegar á alla kanta“ og að það sé „oftúlkun“ að lesa það sem svo að Reitir hafi verið að hóta því að hætta við uppbygginguna á Orkureitnum ef borgaryfirvöld héldu sig við að setja upp smáhýsi fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs í grenndinni. Forstjórinn telur að í umsögn Reita hafi verið „pent, diplómatískt orðalag um að biðja menn að hugsa sig vel um.“
„Svo geta menn bara haft sína skoðun á því prívat og persónulega hvar þessu er best fyrir komið,“ segir Guðjón um smáhýsin.
„Einhversstaðar verður að koma þessu fyrir og mín persónulega skoðun er sú að kannski nálægðin við helsta leikvang ungra barna og húsdýragarðinn og þar sem mikið íþróttastarf fer fram hjá Þrótti og Ármanni sé nú ekki alveg heppilegasti staðurinn, en við sjáum bara til hvernig þetta fer allt saman,“ segir Guðjón.