Helga Thorberg, leikkona og garðyrkjufræðingur, leiðir framboðslista Sósíalistaflokks Íslands í Norðvesturkjördæmi, en hann var kynntur í dag. Þar með hefur flokkurinn kynnt alla framboðslista sína fyrir komandi kosningar, sem fara fram 25. september næstkomandi.
Í öðru sæti á listanum er Árni Múli Jónasson, mannréttindalögfræðingur sem starfar sem framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar. Árni Múli er ekki ókunnugur stjórnmálastarfi en hann starfaði um tíma sem pólitískur ráðgjafi þingflokks Bjartrar framtíðar og aðstoðarmaður formanns flokksins þegar sá flokkur átti fulltrúa á Alþingi. Þá leiddi hann lista Bjartar framtíðar í Norðvesturkjördæmi árið 2013 en náði ekki inn á þing. Árni Múli var einnig í heiðursæti á lista flokksins í kjördæminu í kosningunum 2016. Þá starfaði hann um tíma sem bæjarstjóri Akraness og sem framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.
Hún segir að það sé okkar að tryggja að börnin okkar og barnabörn eigi lífvænlega framtíð. „Það verður að grípa til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir hörmulegar afleiðingar af þeim lífsmáta sem kapítalisminn hefur leitt yfir heimsbyggðina og birtast okkur í fréttum á hverjum degi. Ég hef tíma, brennandi áhuga og baráttuvilja.“
Í þriðja sæti er Sigurður Jón Hreinsson, vélahönnuður og bæjarfulltrúi og í fjórða sæti er Aldís Schram lögfræðingur. Listanum er, líkt og öðrum framboðslistum Sósíalistaflokksins, stillt upp af slembivöldum hópi meðal félaga flokksins.
Listi Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi:
- Helga Thorberg, leikkona og garðyrkjufræðingur
- Árni Múli Jónasson, mannréttindalögfræðingur og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
- Sigurður Jón Hreinsson, véliðnfræðingur og bæjarfulltrúi
- Aldís Schram, lögfræðingur og kennari
- Bergvin Eyþórsson, þjónustufulltrúi og varaformaður Verkalýðsfélags Vestfjarða
- Guðni Hannesson, ljósmyndari
- Ágústa Anna Ómarsdóttir, lyfjatæknir
- Sigurbjörg Magnúsdóttir, eftirlaunakona
- Jónas Þorvaldsson, sjómaður
- Valdimar Arnþór Anderssen, heimavinnandi húsfaðir
- Guðrún Bergmann Leifsdóttir, listakona
- Magnús A. Sigurðsson, minjavörður vesturlands
- Dröfn Guðmundsdóttir, kennari
- Indriði Aðalsteinsson, bóndi
- Fjóla Heiðdal Steinarsdóttir, háskólanemi
- Finnur Torfi Hjörleifsson, lögfræðingur, eftirlaunamaður